Það er oft sagt um MS að þar sé á ferð sjúkdómur með 1.000 andlit. Fáir MS-greindir geta samsvarað sig öðrum og hver einstaklingur svarar lyfjum á sinn hátt. Taugalæknum er því vandi á höndum þegar ákvarða þarf meðferð og þurfa oft að prófa sig áfram.

Vísindamenn undir stjórn Dr. Tomas Kalincik við háskólann í Melbourne í Ástralíu hafa þróað reiknirit (algorithm) sem ætti að auðvelda læknum að veita sjúklingum sínum strax rétta lyfjameðferð.

 

Frá þessu segir í frétt á vefsíðu MSIF, alþjóðlegu MS-samtakanna.

 

Reikniritið byggir á upplýsingum úr viðamiklum alþjóðlegum gagnagrunni um MS-sjúklinga og á að geta spáð fyrir um viðbrögð einstaklinga við tiltekinni meðferð.

Gagnagrunnurinn MSBase hefur að geyma klínískar upplýsingar um rúmlega 52.000 MS-sjúklinga víða um heim. Notast var við gögn tæplega 9.000 einstaklinga frá 117 sjúkrahúsum og heilsugæslustöðvum í 34 löndum, um aldur þeirra, kyn, sjúkdómsgang, tíma frá fyrstu einkennum, sjúkdómseinkenni, fjölda og staðsetningar MS-skemmda í heila og mænu, fyrri meðferðir og breytingar á fötlun eða einkennum.

Eftir að reikniritið hafði verið hannað var það keyrt saman við hið virta sænska MS-skráningarkerfi, MS-registret, til að staðfesta áreiðanleika þess. MS-registret skráir á nákvæman og gagnvirkan hátt sjúkrasögu MS-greindra í Svíþjóð og þykir mikilvægt verkfæri m.a. til samanburðarrannsókna.

Reikniritið stóð undir væntingum og telja vísindamennirnir að með því sé í yfir 80% tilfella hægt að spá fyrir um svörun einstaklings við lyfjameðferð. Einnig að spá fyrir um fötlun og afleiðingar MS-kasta. Í einhverjum tilfellum væri jafnvel hægt að spá fyrir um hvort sjúkdómsferli einstaklings með MS í köstum þróist síðar í síðkomna versnun MS (SPMS).

Verið er að vinna að því að gera reikniritið aðgengilegt fyrir taugalækna um allan heim og er ekki að efa að þó þetta reiknirit sé ekki óbrigðult þá muni það hjálpa til við að ákvarða bestu mögulegu meðferð fyrir hvern og einn.  

 

 

Heimild hér

Mynd hér

 

Bergþóra Bergsdóttir, fræðslufulltrúi

 

Frekari fróðleikur:

MS-registret í Svíþjóð, sjá hér