Lyfjafyrirtækin Biogen og AbbVie hafa innkallað MS-lyfið Zinbryta, sem fékk markaðsleyfi í Evrópu um mitt ár 2016 og á Íslandi 2017.

Zinbryta hefur ekki verið ávísað á Íslandi.

 

Þegar lyf fær markaðsleyfi hafa sérfræðingar, á  grundvelli rannsóknagagna, metið að ávinningur af notkun þess vegi upp þær aukaverkanir sem tilkynnt hefur verið um meðan á tilraunaferli lyfsins hefur staðið. Þessar aukaverkanirnar eru listaðar upp með markaðsleyfinu og flokkaðar eftir alvarleika og algengi. En þrátt fyrir margra ára rannsóknir, þar sem lyfið er m.a. prófað á fólki, geta nýjar aukaverkanir komið fram í mörg ár eftir markaðssetningu.

Það er því alltaf ákveðin áhætta við notkun nýrra lyfja og skýrir hvers vegna öflug lyf með erfiðar aukaverkanir eru ekki notuð við vægum MS. Nýjasta og kröftugasta lyfið er þannig ekki endilega það besta fyrir alla. Mörgum dugar veikari og gamalreyndari lyf til að halda sjúkdómnum í skefjum. Að sjálfsögðu er þó eðlilegt að nota kröftug lyf við erfiðum sjúkdómi. Almennt má segja, að því kröftugri lyf þeim mun meiri hætta er á alvarlegum aukaverkunum.

 

Zinbryta

Við útgáfu markaðsleyfis Zinbryta var vitað að alvarlegar aukaverkanir af notkun lyfsins gætu verið svæsnar lifraskemmdir og því voru gefnar út strangar leiðbeiningar um hvernig fylgjast skyldi með einstaklingum á Zinbryta með tilliti til þess.

Hins vegar fór að bera á alvarlegum tilfellum heilabólgu og heilahimnabólgu meðal notenda eftir að lyfið var tekið í almenna notkun. Þegar tilfellin voru orðin of mörg í hlutfalli við fjölda einstaklinga á lyfinu ákváðu lyfjafyrirtækin að innkalla lyfið þar sem áhættan af notkun þess væri orðin of mikil.

 

Fjallað var um markaðsleyfi Zinbryta í frétt á vefnum 12. júní 2016 hér.

 

Heimild hér

 

Bergþóra Bergsdóttir, fræðslufulltrúi