Ragnhildur Þóra Káradóttir, vísindamaður, sem m.a. rannsakar MS-sjúkdóminn, rekur vísindastofu í Cambridge á Englandi. Á dögunum var hún, ein norrænna vísindamanna, valin í teymishóp 20 fremstu ungra vísindamanna í Evrópu. Það er mikil viðurkenning fyrir störf hennar og gefur henni mun meiri möguleika á  rannsóknastyrkjum sem tryggja fjármögnun til áframhaldandi rannsókna.

Ragnhildur Þóra hefur sérstakan áhuga á hvíta efni heilans, þ.e. myelininu, sem er verndandi fitulag sem umlykur taugasímanna og ræður hraða og virkni taugaboða. Í MS-sjúkdómnum myndast, í svokölluðu MS-kasti, ör eða sár á myelínið sem með tímanum hefur áhrif á leiðni taugaboða þannig að skilaboð um hreyfingu, tal eða hugsun truflast og nær illa eða alls ekki fram til réttra líkamshluta og einkenni sjúkdómsins koma fram.

Heili MS-einstaklings hefur þann hæfileika, sérstaklega í byrjun sjúkdómsferilsins, að gera við skemmdir á myelininu. Það skýrir hvers vegna einkenni MS-kasts ganga til baka. Hins vegar minnkar geta heilans til viðgerða eftir því sem líður á sjúkdómsferlið og köstum fjölgar sem helst í hendur við að með tímanum verða MS-einkennin varanleg.

Ragnhildur Þóra og samstarfsfélagar hennar hafa fundið samband á milli þeirra stofnfrumna í músum sem koma að viðgerð myelinsins og skemmdra taugafrumna. Þau hafa komist að því að verði truflun á samskiptum á milli þessara frumna þá hverfur möguleikinn til viðgerða. Rannsóknir þeirra beinast því að því hvort þetta gerist í MS-sjúkdómnum sjálfum.

Ragnhildur Þóra skoðar þannig hvað gerist þegar heilinn gerir sjálfur við skemmt myelin sem skýrir þá hvað fer úrskeiðis þegar hann gerir það ekki. Þegar þessi skilningur liggur fyrir er hægt að þróa lyf til að auka hæfileika heilans til viðgerða og þar með að forða varanlegum afleiðingum kasta og jafnvel að fá einhvern getumissi til baka.

 

Spennandi J

 

 

Sjá viðtal í Síðdegisútvarpi RÚV 29.12.2014 hér og umfjöllun og viðtal í fréttum RÚV 30.12.2014 hér (frétt á mín. 13:55-15:45).

 

 

Bergþóra Bergsdóttir