Myndina tóku SMS-arar á MS-ráðstefnunni í september og sýnir samheldni hópsins. SMS stendur fyrir Su…
Myndina tóku SMS-arar á MS-ráðstefnunni í september og sýnir samheldni hópsins. SMS stendur fyrir Suðurnesjafólk með MS og einkunnarorðin "Sjálfshjálp og samstaða".

Landsbyggðarhópurinn á Suðurnesjum, SMS, hittist að jafnaði fyrsta miðvikudag í mánuði til að hafa gaman saman, styðja hvert annað og fræðast. Nú í byrjun mánaðar buðu þau til sín formanni og fræðsluteymi félagsins á opinn fund með aðstandendum. Fyrr um daginn hafði formaður félagsins farið með fulltrúum SMS á fund í Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, HSS.

 

Fundur með HSS

Fundurinn átti sér aðdraganda en Björg Ásta Þórðardóttir, formaður, og Víðir Jónsson, tengiliður SMS-hópsins, höfðu sent bréf til HSS þar sem óskað var eftir samtali og samstarfi við HSS um bætta þjónustu við fólk með MS á Suðurnesjum.

Fundurinn var liður í stefnumótunaráætlun félagsins, sem fram fór sl. veturþar sem ætlunin er meðal annars að:

  •        MS-félagið eigi góð samskipti og sé í góðri samvinnu við lækna og annað heilbrigðisstarfsfólk um allt land og
  •        MS-fólk eigi greiðan aðgang að sérhæfðu heilbrigðisstarfsfólki um allt land.

Á fundinn með formanni og þremur félögum SMS, mættu fyrir hönd HSS framkvæmdarstjóri lækninga og framkvæmdarstjóri hjúkrunar.

Voru fundarmenn sammála um að fundurinnn hefði verið gagnlegur fyrir báða aðila, bæði til að greina það sem mætti gera betur og eins að leita lausna. Vonandi mun reynslan sýna bætta þjónustu við fólk með MS á Suðurnesjum.

 

Fræðslufundur

Frá félaginu mættu Björg Ásta formaður og Berglind, Bergþóra og Sigurbjörg. Miklar umræður sköpuðust um það sem fram hafði komið á fundinum með HSS fyrr um daginn og var mikil ánægja með að hann skyldi haldinn. Ábyggilegt er að skilningur á aðstæðum beggja aðila hafi aukist.

Björg Ásta kynnti síðan það sem helst er að gerast í starfsemi félagsins og Bergþóra hélt erindi um það helsta sem er að gerast í rannsóknum á meðferðum við MS.

Sjá glærur hér

Góðmennt var á fundinum sem var hinn fjörugasti

 

SMS-fólk – kærar þakkir fyrir góðan og skemmtilegan fund !

 

 

 BB