Einstaklingar með MS á ónæmisbælandi meðferð mega fá flensusprautuna, þar sem hún inniheldur bóluefni sem ekki eru lifandi. Einnig velja margir að fá bólusetningu gegn pneumókokkum, sem eru bakteríur sem valda m.a. lungnabólgum og fleiri alvarlegum sýkingum.

Bólusetning gegn inflúensu er nú fáanleg á öllum heilsugæslustöðvum og í tveimur verslunum Lyfju. Bólusetningin veitir vörn í allt að sex mánuði.

 

Skv. upplýsingum frá Heilsugæslunni er hætta á alvarlegum fylgikvillum inflúensu mest meðal m.a. fólks með bælt ónæmiskerfi. Þeir sem eru á ónæmisbælandi MS-lyfjum er því ráðlagt að bólusetja sig, en ákvörðun um það er þó að sjálfsögðu undir hverjum og einum komið.

Á bls. 56 í samantekt á eiginleikum Blitzima í Sérlyfjaskrá er að finna þetta m.a.: "Sjúklingar sem fá rítúxímab mega fá bólusetningar með deyddum bóluefnum. Þó getur svörunarhlutfall verið lægra við deyddum bóluefnum.....Sé þörf á bólusetningum með deyddum bóluefnum meðan á meðferð með rítúxímab stendur, skal þeim lokið eigi síðar en 4 vikum áður en næsta meðferð með rítúxímab hefst."

Svar Embættis landlæknis við fyrirspurn: "Fólk sem notar [MS] lyf er misónæmisbælt, en ég myndi ekki endilega horfa of mikið á tímasetningu og eiga kannski á hættu að flensubóluefni klárist, bara endilega fá bólusetningu þegar hún býðst. Það er ekkert garantí fyrir að hún verji mann, en ef maður fær hana ekki er alveg ljóst að vörnin er engin."  

 

Heilsugæslan

Fólk á ónæmisbælandi MS-lyfjum fá bóluefnið sér að kostnaðarlausu þar sem þeir eru í tilgreindum áhættuhópi sóttvarnalæknis. Hins vegar þarf að greiða komugjald heilsuverndarstöðvar. Öryrkjar greiða ekki komugjald en almennt verð er 1.200 kr.

Almennt er boðið upp á inflúensubólusetningar á heilsugæslustöðvunum frá kl 8.00 – 15.00 alla virka daga. Tíminn getur þó verið misjafn á milli stöðva.

Einnig getur verið tímabundinn skortur á bóluefni á einstaka stöðvum. Því gæti verið ráð að hringja á undan.

 

Lyfja

Lyfja býður upp á bólusetingu vegna innflúensu á tveimur stöðum í takmarkaðan tíma:

Lágmúla: kl. 17–19 þriðjudaga, miðvikudaga og fimmtudaga.

Smáratorgi: kl. 11-14 laugardaga og sunnudaga.

Almennt verð er 2.890 kr. og 1.190 kr. fyrir öryrkja og eldri borgara.

 

Bólusetning gegn lungnabólgum og fleiri alvarlegum sýkingum

Pneumókokkar eru bakteríur sem valda m.a. lungnabólgum og fleiri alvarlegum sýkingum.

Landlæknir mælir með að fullorðinn einstaklingur, sem er með aukna áhættu á alvarlegum pneumókokkasýkingum (sem m.a. eru þeir sem eru á ónæmisbælandi lyfjum) og sem ekki hefur fengið neina bólusetningu gegn pneumókokkum, fái eina bólusetningu með próteintengdu bóluefni og að auki bólusetningu með fjölsykrubóluefni a.m.k. 8 vikum síðar. Ekki er mælt með frekari bólusetningu fyrr en við 60 ára aldur (fjölsykrubóluefni).

Sjá nánar leiðbeiningar frá Landlækni en einnig er hægt að spyrjast fyrir á heilsugæslustöð.

Verð: 

  • Lungnabólga – fjölsykrubóluefni (Pneumovax), 4.600 kr.
  • Lungnabólga – próteintengt bóluefni (Prevenar 13), 9.000 kr.

 

Aðrar bólusetningar

Athugið að bólusetning með lifandi bóluefnum er ekki æskileg meðan á lyfjameðferð með ónæmisbælandi lyfjum stendur og í allt að 4 mánuði eftir að meðferð lýkur. Spyrjið alltaf heilbrigðisstarfsmann fyrir bólusetningu hvort bóluefnið sé lifandi eða ekki.

Ef þú telur að þú þurfir á bólusetningu að halda í náinni framtíð, þ.á m. nauðsynlegum bólusetningum til að ferðast til annarra landa, skaltu láta lækni þinn eða hjúkrunarfræðing vita með góðum fyrirvara, eða helst áður en meðferð hefst.

 

 

Bergþóra Bergsdóttir, fræðslufulltrúi

 

Heimild hér, hér, hér , hér og hér

Mynd