Er hægt að segja fyrir um hugræn einkenni í MS?

Rannsóknir hafa ekki sýnt fram á fylgni á milli hugrænna og líkamlegra einkenna í MS, hversu lengi einkennin vara eða alvarleika þeirra. Því er erfitt að segja fyrir um hvernig hugræn einkenni þróast hjá einstaklingum en þau geta komið fyrir hjá nýgreindum jafnt og fólki sem hefur haft MS í áraraðir. Einstaklingur með MS getur haft alvarleg hugræn einkenni en engin eða aðeins lítilsháttar líkamleg einkenni. Hann getur líka haft væg eða engin hugræn einkenni en mikil líkamleg einkenni.  

Fólk sem þekkir ekki til MS-sjúkdómsins ruglar oft saman líkamlegum og hugrænum einkennum með því að túlka sýnileg líkamleg einkenni MS-einstaklings sem svo að „eitthvað sé ekki í lagi“ með getu hans til að hugsa skýrt. Líkamlegu einkennin geta til dæmis verið talerfiðleikar, það að vera lengi að tjá sig eða vera óskýr í tali (dysarthria) og/eða að eiga í erfiðleikum með að stjórna hreyfingum (ataxia) þannig að einstaklingurinn virðist ráðvilltur. Aðrir geta átt í erfiðleikum með að stjórna augnhreyfingum (nystagmus) og geta þá til dæmis ekki haldið augunum föstum á þeim sem talað er við.  

Þar sem erfitt er að sjá fyrir hugræn einkenni sem tengjast MS-sjúkdómnum er mikilvægt að vera meðvitaður um öll einkenni, jafnvel þau vægustu, og reyna að takast á við þau eða meðhöndla og finna lausnir sem geta lagað ástandið. Vitneskjan um og óttinn við að fá hugræn einkenni geta þó leitt til aukinnar vitundar um til dæmis minniháttar minnisglöp. Þau geta allir fengið en fólk með MS gæti hins vegar túlkað þau sem hugræn einkenni. Spurningin er aðeins hvort gleymskan sé meira áberandi en áður og hafi áhrif á daglegt líf.

hf

Photo courtesy of Shutterstock