Hægðavandamál

Margir finna fyrir hægðatregðu og/eða hafa óreglulegar hægðir. Orsökin getur verið minni hreyfing, að viðkomandi drekkur ekki nægjanlega eða borðar ekki nóg af trefjaríku fæði. Einnig getur ástæðan verið aukaverkun lyfja eða spasmar og/eða minni tilfinning í grindarbotni.

Mikilvægt er að hafa reglulegar hægðir því annars eykst hættan á þvagfærasýkingu þar sem erfiðara verður að tæma þvagblöðruna auk þess sem öll almenn líkamleg og andleg óþægindi aukast.

Til að ráða bót á vandanum er gott að hreyfa sig eins og hægt er, drekka nóg af vatni (8-10 glös á dag), borða sveskjur og trefjaríka fæðu (hveitiklíð, gróft korn, ávexti og grænmeti), taka inn meltingargerla sem stuðla að heilbrigðri þarmaflóru (fást til dæmis í apótekum eða í heilsuhillum verslana) og gefa sér góðan tíma á salerninu í ró og næði. Ef vandamálið er enn til staðar er hægt að kaupa hægðalosandi lyf í apóteki. Leita skal til læknis ef vandamálið verður viðvarandi.