Erfiðleikar við gang

Göngutruflanir geta stafað af skyntruflun og dofa, sem skerðir stöðuskyn einstaklingsins, jafnvægisleysi, máttleysi eða skertum krafti í ganglimi/-limum, yfirleitt í mjöðm eða ökkla. Einnig getur aukin vöðvastífni eða „spasticitet“ valdið því að fótur leitar niður um ökkla og truflað göngu. Þá getur stutt ganga verið í lagi en ekki þegar gangan lengist. Þá getur til dæmis annar fóturinn farið að „dragast aftur úr“ eða að einstaklingnum finnst hann ekki lengur ráða við stjórn fótarins.

Ef um gangtruflun er að ræða á einstaklingurinn það til að þreytast frekar. Eins er meiri hætta á því að fólk hrasi eða detti og finni stoðkerfisverki í ökklum, hnjám, mjöðmum og mjóhrygg. Til eru ökklaspelkur til stuðnings sem létta gang auk gönguhjálpartækja, s.s. hækjur eða göngugrindur. Sjúkraþjálfarar geta veitt upplýsingar og gefið góð ráð.