Það er fátt eins gott og að eiga stuðning maka síns vísan við greiningu á erfiðum sjúkdómi til að takast á við þau vandamál sem sjúkdómurinn getur haft í för með sér. Það er þó ekkert sjálfgefið í þeim efnum þar sem makar verða einnig fyrir miklu áfalli sem þeir eru misvel í stakk búnir að vinna úr. Þeir fá heldur ekki alltaf þann stuðning sem þeir þarfnast, á sama hátt og þeim MS-greinda býðst.  

Það fer eftir tilfinningum og skapferli hins heilbrigða í sambandinu hvernig hann upplifir sjúkdóm maka síns. Báðir aðilar þurfa að lifa við óvissu um framtíðina og óhjákvæmilega hafa erfiðleikar hins MS-greinda maka áhrif á þann heilbrigða líka, bæði líkamlega og tilfinningalega. MS fylgir óvissa og óþægilegar spurningar sem allar eiga rétt á sér. Hvernig verður ástandið eftir eitt ár, tvö ár eða fimm ár? Versnar sjúkdómurinn eða ganga einkennin til baka? Ef hann versnar, verður það þá bæði líkamlega og andlega? Og hvað þá? 

Spurningar vakna um hvernig daglegu lífi er best háttað. Makar geta upplifað að þeir eigi aldrei að kvarta heldur eigi allt að snúast um hinn MS-greinda einstakling. Þeir eigi að halda andliti hvað sem á dynur. Það getur einnig vafist fyrir þeim að vita hvernig og hvenær þeir eigi að styðja eða standa við bakið á maka sínum, hvað þeir eigi að segja eða gera og þá hvenær. Slíkt er mjög slítandi og getur valdið áhyggjum og kvíða.  

Utan heimilis eru makar oft minntir á aðstæður sínar með spurningum um líðan hins MS-greinda. Það er eðlilegt og vel meint að fólk spyrji en viðkomandi, sem hinum heilbrigða í sambandinu, getur fundist óþægilegt að vera stöðugt spurður um líðan maka síns sem kannski er ekki góð. Sérstaklega ef hann er spurður þegar hann er að gera eitthvað skemmtilegt sem hinn MS-greindi getur ekki lengur tekið þátt í og hjónin/parið voru vön að gera saman. Samviskubitið getur verið nagandi yfir því að geta gert hluti sem makanum er fyrirmunað að taka þátt í vegna sjúkdómsins.  

Sjúkdómurinn hefur þannig óhjákvæmilega mikil áhrif á heimilislífið og ákvarðanatöku um framtíðina, svo sem samskipti, fjármál, barnauppeldi, verkefnaskipan, svefnvenjur, kynlíf, sameiginleg áhugamál, ferðalög og þess háttar.  

Það er skiljanlegt að heilbrigði makinn fyllist örvæntingu eða verði reiður og sár yfir aðstæðum sínum, sérstaklega ef hið nýja líf snýst orðið eingöngu um hinn MS-greinda. Álagið eykst og hann verður þreyttari.  Hann gæti líka verið sakbitinn yfir því að bera ekki sömu tilfinningar til maka síns eins og áður en veikindin gerðu vart við sig. Allar þessar tilfinningar eru eðlilegar. 

Fjölskylda og vinir gera vel með því að sýna makanum stuðning og athygli, ekki síður en hinum MS-greinda. 

MS-félagið býður upp á ráðgjöf og sérstök námskeið fyrir maka.