Verkir

Verkir hjá einstaklingum með MS geta orsakast af MS-sjúkdómnum en líka tengst stoðkerfinu, til dæmis vegna hreyfihömlunar einstaklingsins.

Taugaverkir vegna sjúkdómsins sjálfs geta verið stöðugir en líka komið og farið. Taugaverkir tengjast oft truflunum í skyni, sjá Skyntruflanir hér ofar, og finnur einstaklingur þá ekki eingöngu fyrir dofa, heldur náladofa, aukinni snertiviðkvæmni, kulda, brunatilfinningu o.fl.

Til eru taugaverkir sem geta komið skyndilega en vara stutt, til dæmis Lhermitte´s einkennið. Það stafar af truflun ofarlega í hálsmænu og lýsir sér eins og rafstraumur niður bak og jafnvel út í útlimi þegar einstaklingur beygir höfuðið fram.

Önnur tegund taugaverkja lýsir sér eins og rafstraumsverkir öðrum megin í andliti, svo kallaðir þríburataugaverkir (e. trigeminal neuralgia) en þríburataugin stýrir því að kyngja og tyggja. Verkirnir koma fram þegar viðkomandi tyggur, kyngir, brosir eða burstar tennur.

Tiltölulega algeng einkenni við mænutruflunum eru dofi og ónot í höndum og fótum. Eigi einstaklingur við aukna stífni í útlimum að etja fylgir því oft dofi og ónot, jafnvel verkir.

Verki er hægt að meðhöndla með lyfjum og sjúkraþjálfun. Einnig er gagnlegt að hreyfa sig og gera vöðvateygjur daglega, gefa sér tíma í djúpslökun og halda „sársaukadagbók“ til að læra á sjálfan sig. Með því er hægt að forðast aðstæður sem geta framkallað verki. Í einhverjum tilfellum er hægt að þjálfa athyglina frá sársaukanum á meðan verkirnir standa yfir, þ.e. að færa sársaukann frá því að vera í forgrunni til að vera meira í bakgrunni, með því til dæmis að „temja hugann“ eða hafa eitthvað áhugavert og skemmtilegt fyrir stafni.

Jafnvel getur iðjuþjálfi eða sjúkraþjálfari aðstoðað við að yfirfara aðstæður á heimili eða á vinnustað með tilliti til líkamsstöðu við vinnu og hvíld og eftir atvikum ráðlagt um notkun hjálpartækja.

Verkir geta aukist við hita, kulda, eftir lélegan svefn, þreytu, hreyfierfiðleika, lágt sjálfsmat, einmannaleika eða þunglyndi. Þá getur hjálpað að leita lausna við þessum einkennum samhliða meðhöndlun verkja.

Fróðleiksmoli:

 • Þjáist þú af verkjum og vöðvaspennu, sjá hér

 

Góð ráð við verkjum 

 • Verkir hjá einstaklingum með MS geta orsakast af MS-sjúkdómnum, taugaverkir, en líka tengst stoðkerfinu, stoðkerfisverkir. 

 • Lyfjagjöf fer eftir hvar verkir eru og hver orsök þeirra er.  

 • Sjúkraþjálfun er mjög mikilvæg.  

 • Hreyfa sig og gera vöðvateygjur daglega 

 • Gefa sér tíma í reglulega (djúp)slökun  

 • Þarf að skoða mataræðið? 

 • Halda „sársaukadagbók“ til að læra á sjálfan sig. Með því er hægt að forðast aðstæður sem geta framkallað verki.  

 • Þjálfa athyglina frá sársaukanum á meðan verkirnir standa yfir, þ.e. að færa sársaukann frá því að vera í forgrunni til að vera meira í bakgrunni, með því t.d. að „temja hugann“ eða hafa eitthvað áhugavert og skemmtilegt fyrir stafni.  

 • Iðjuþjálfi eða sjúkraþjálfari geta aðstoðað við að yfirfara aðstæður á heimili eða á vinnustað með tilliti til líkamsstöðu við vinnu og hvíld oúg eftir atvikum ráðlagt um notkun hjálpartækja. 

 • Verkir geta aukist við hita, kulda, eftir lélegan svefn, þreytu, hreyfierfiðleika, lágt sjálfsmat, einmanaleika eða þunglyndi. Þá getur hjálpað að leita lausna við þessum einkennum samhliða meðhöndlun verkja. 

 • Lyfjagjöf fer eftir hvar verkir eru og orsök þeirra 

 • Lyf; t.d. Gabapentin og Lyrica við taugaverkjum.Tramol-L (töflur eða plástur) er sterkt morfínskylt verkjalyf sem virkar á vöðvaverki.

 

 

ATH! Ítarefni væntanlegt.