Þvagblöðruvandamál

Allt að 75% einstaklinga með MS, bæði konur og karlar, eiga í einhvers konar vandræðum með tæmingu þvagblöðrunnar, sérstaklega þeir sem eiga erfitt með gang. Það er vegna þess að tenging taugaþráða á milli mænu og þvagblöðru er fyrir neðan tengingu mænu til fóta og boð um nauðsyn tæmingar þvagblöðru ná því ekki eðlilega til og frá heila. Einkennandi fyrir MS er að fólki verður „brátt“ og á af þeim sökum á hættu að ná ekki á salerni og missa þar með þvag.

Erfiðleikar með þvagblöðruna eru þó ekki alltaf MS-sjúkdómnum að kenna.

Vandamálin geta verið:

  • Ofvirk þvagblaðra: Stöðug og skyndileg þörf fyrir að tæma blöðruna. Taugarnar senda boð til blöðru um tæmingu þó aðeins lítið magn af þvagi sé í blöðrunni.
  • Lausheldni: Erfiðleikar með að halda þvagi. Oft og skyndileg þörf fyrir losun.
  • Erfiðleikar við að tæma blöðruna: Einstaklingur getur bæði haft vandamál með að byrja þvaglát en einnig að hafa ekki tilfinningu fyrir því hvort blaðran sé tóm. Þvagflæðið er ekki mikið og kemur með hléum. Þetta kallar á tíðar klósettferðir og jafnvel þvagleka á milli þeirra. 

Margir bregðast við þvagvandamálum með því að drekka minna til að forðast salernisferðir en það er ekki heppilegt og eykur meðal annars hættu á þvagfærasýkingu.

Mikilvægt er að tæma alltaf þvagblöðruna. Til að tæma betur er gott ráð að prófa að halla sér fram og/eða til hliðar á meðan setið er á salerninu. Karlmönnum er ráðlegt að setjast á salerni í stað þess að standa.

Ákveðnar tegundir matar og drykkja erta þvagblöðruna; drykkir sem innihalda koffín, áfengi, drykkir sem innihalda mikið af litarefnum, drykkir úr sítrusávöxtum og mikið kryddaður matur. Hægt er að halda „dagbók“ eða skrá yfir hvað maður drekkur og borðar til að sjá hvort þetta eða hitt hafi áhrif á blöðruna.

Gott er, bæði fyrir konur og karla, að þjálfa þvagblöðruna og gera grindarbotnsæfingar reglulega. Til eru ýmis lyf sem geta hjálpað til dæmis við ofvirkri þvagblöðru og því ráð að hafa samband við heimilislækni. Stundum er einstaklingum vísað til þvagfæralækna.

Til eru þvagbindi og –buxur í öllum stærðum og gerðum fyrir bæði konur og karla. Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) greiða mestan hluta kostnaðar en heilbrigðisstarfsmaður þarf að sækja um úttektarskírteini til SÍ fyrir hönd einstaklingsins sem gildir í nokkur ár til úttektar í völdum verslunum. Einnig eru til þvagleggir og þvagpokar sem auðvelda tæmingu. SÍ tekur einnig þátt í kostnaði þeirra. Nánari upplýsingar um þvagbindi.

Fróðleiksmoli:

  • Góð ráð við einkennum, hér