Þreyta

Þreyta er algengt einkenni MS. Stundum er MS-þreytu ruglað saman við leti áður en sjúkdómurinn er greindur en sumir upplifa þreytu sem fyrsta einkenni MS.

MS-þreyta er ekki venjuleg þreyta sem eðlilegt er að fólk finni fyrir eftir áreynslu eða erfiðan dag. MS-þreyta er íþyngjandi þreyta sem gerir einstaklingi erfitt fyrir í daglegum athöfnum. Þreytan hverfur yfirleitt ekki eftir stutta hvíld og er ekki auðveldlega hrist af sér.

MS-þreyta getur verið bæði líkamleg og hugræn. Hugræn þreyta er ekki það sama og að tapa andlegri færni eða minni. Hins vegar getur MS-þreytan haft áhrif á skammtímaminnið, einbeitingu og orðanotkun.

MS-þreyta er talin vera sambland hægfara taugaboða og vöðvaslappleika. Ýmislegt annað getur haft áhrif á eða orsakað þreytu, s.s. minni hreyfing, þunglyndi, sýkingar, svefnleysi og lyf.

Gott er að bera óútskýrða þreytu undir lækni. Að öðru leyti er gott að forgangsraða verkefnum og gefa sér hvíldartíma til að spara orku í allt þetta skemmtilega og nauðsynlega í lífinu, lifa heilbrigðu og reglusömu lífi, huga vel að næringu og halda blóðsykri jöfnum. Ýmis hjálpartæki geta komið að gagni við að spara orku.

Fróðleiksmolar:

  • MS-þreyta er ekki auðveld viðfangs, sjá hér 
  • MS-þreyta er engin venjuleg þreyta. Fáðu hér góð ráð., sjá hér