Líkamleg einkenni

LÍKAMLEG EINKENNI

Einkenni MS eru margbreytileg og því er stundum talað um MS sem sjúkdóminn með þúsund andlit. Það sem gerist þegar MS-einkenni koma fram er að ónæmiskerfið „telur sig“ skynja utanaðkomandi áreiti. Til varnar áreitinu sendir það hvít blóðkorn úr blóðrásinni inn í miðtaugakerfi þar sem blóðkornin ráðast á mýelínið sem einangrar taugaþræði og hjálpar til við flutning taugaboða um þá. Hvers vegna ónæmiskerfið ræðst á eigið mýelín er ennþá óljóst. Við árásina myndast rof eða sár á mýelínið og taugaboðin verða hægari eða falla niður. Koma á fram einkenni sjúkdómsins og fara þau eftir því hvar sárin eru staðsett í miðtaugakerfinu.

Við segulómskoðun (MRI) má sjá þau svæði þar sem mýelínið er skemmt sem hvítir blettir á segulómunarmynd. Mikilvægt er að muna að fjöldi bletta sem fram koma á segulómunarmynd segja ekki til um alvarleika eða fjölda einkenna.

Einkenni MS eru margvísleg og koma mismikið fram hjá fólki. Best er að glíma við þau einkenni eða vandamál sem koma upp þegar þau gera það en ekki hafa áhyggjur af því sem gæti gerst. Hægt er að ræða um einkenni við MS-hjúkrunarfræðing eða taugalækni, eða fá ráð hjá MS-félaginu.

Einkenni MS geta verið bæði líkamleg og hugræn. Líkamleg einkenni eru flestum skiljanleg og njóta samúðar en annað gildir um hugrænar og tilfinningatengdar breytingar sem ekki eru eins áþreifanlegar og oft erfiðari að takast á við. Sjá nánar HÉR (hlekkur á Hugræn einkenni).

MS er ennþá ólæknandi en miklar framfarir hafa þó orðið í meðhöndlun sjúkdómsins á síðustu árum. Ný og kröftug lyf eru komin fram sem geta hamið framgang hans með því að milda einkenni, fækka köstum eða stytta tímann sem þau standa yfir. Einnig er hægt að fá lyf eftir þörfum til að meðhöndla hin margvíslegu einkenni MS.

MS-einkenni geta komið fram við aukna þreytu, aukið álag eða í veikindum, en þá er ekki um eiginlegt MS-kast að ræða. Enn fremur, til að einkenni geti talist til MS-kasts þurfa þau að vera til staðar í a.m.k. sólarhring. Gott er að láta MS-hjúkrunarfræðing eða taugalækni vita ef einkenni gera vart við sig. Ráðlagt að skrá hjá sér einkennin, hversu lengi þau vara og hvernig þau lýsa sér.

Einstaklingar með MS geta upplifað einkenni sem geta líkst MS-einkennum en eiga sér allt aðra orsök. Varast ber að skrifa allt á MS-reikninginn.

 

Enginn fær öll einkenni sjúkdómsins.

 

Í þessum kafla er líkamlegum einkennum MS lýst og ráð gefin. Fræðsla og þekking eykur skilning og auðveldar samskipti, svo það er æskilegt að fjölskylda og vinir kynni sér efnið eftir atvikum.

 

Upptalningin er í stafrófsröð.

DOFI/NÁLADOFI

Dofi er með algengustu byrjunareinkennum MS. Hann getur komið í stórum eða litlum hluta líkamans og varað í styttri eða lengri tíma. Náladofi er talinn til taugaverkja. Tilfinningin er einkennileg þegar komið er við dofin húðsvæði þar sem viðkomandi finnur minnkað skyn eða

bara öðruvísi tilfinningu en venjulega. Að vera dofinn í fótum getur aukið fallhættu og þegar fingur eru dofnir getur verið erfitt að vinna fínvinnu. Einnig getur maður misst hluti úr höndum sér.

Erfitt er að gera nokkuð við dofa nema helst að nota áhöld með stömu yfirborði, ef það er hægt.

ERFIÐLEIKAR VIÐ GANG

Göngutruflanir geta stafað af jafnvægisleysi, þróttleysi, skertum krafti í ganglimi/-limum eða skyntruflun og dofa, sem skerðir stöðuskyn einstaklingsins. Einnig getur aukin vöðvastífni eða spasmi valdið því að fótur getur leitað niður um ökkla og truflað göngu. Þá getur fóturinn farið að „dragast aftur úr“ eða að einstaklingnum fundist hann ekki lengur ráða við stjórn fótarins.

Ef um gangtruflun er að ræða á einstaklingurinn það til að þreytast frekar. Eins er meiri hætta á því að fólk hrasi eða detti og finni stoðkerfisverki í ökklum, hnjám, mjöðmum og mjóhrygg. Til eru sérstakar sérsmíðaðar ökklaspelkur til stuðnings sem létta gang auk gönguhjálpartækja, s.s. hækjur eða göngugrindur. Sjúkraþjálfarar geta veitt upplýsingar og gefið góð ráð.

HÆGÐAVANDAMÁL

Margir finna fyrir hægðatregðu og/eða hafa óreglulegar hægðir. Orsökin getur verið minni hreyfing, að viðkomandi drekkur ekki nægjanlega eða borðar ekki nóg af trefjaríku fæði. Einnig getur ástæðan verið aukaverkun lyfja, spasmar og/eða minni tilfinning í grindarbotni. Mikilvægt er að hafa reglulegar hægðir því annars eykst hættan á þvagfærasýkingu þar sem erfiðara verður að tæma þvagblöðruna auk þess sem öll almenn líkamleg og andleg óþægindi aukast.

Til að ráða bót á vandanum er gott að hreyfa sig eins og hægt er, drekka nóg af vatni (8-10 glös á dag), borða sveskjur og trefjaríka fæðu (hveitiklíð, gróft korn, ávexti og grænmeti), taka inn meltingargerla sem stuðla að heilbrigðri þarmaflóru (fást til dæmis í apótekum eða í heilsuhillum verslana) og gefa sér góðan tíma á salerninu í ró og næði. Ef vandamálið er enn til staðar er hægt að kaupa hægðalosandi lyf í apóteki. Leita skal til læknis ef vandamálið verður viðvarandi.

JAFNVÆGISLEYSI

Truflun á jafnvægi getur m.a. verið vegna dofa, máttminnkunar, sjóntruflana, svima, vöðvaspennu og spasma, skjálfta, þreytu, verkja, ofurnæmnis í fótum eða MS-skemmda í litla heila. Minna jafnvægi eykur hættu á við viðkomandi hrasi eða detti. Þessi og mörg önnur einkenni aukast auðveldlega við þreytu og álag og í aðstæðum þar sem áreiti eru mörg, til dæmis í fjölmenni. Jafnvægisæfingar eru árangursríkar en mikilvægt er að halda líkamlegum styrk eins og unnt er. Til eru gönguhjálpartæki og hjálpartæki til að setja upp á heimilum eins og handföng, baðbekkir eða baðstólar.

MÁTTMINNKUN/MÁTTLEYSI

Máttleysi getur verið vægt, stundum þannig að einstaklingurinn finnur einungis fyrir vægri klaufsku í hendi/höndum eða fyrir máttleysi í fæti/fótum við áreynslu. Við meira máttleysi verður oft vart aukinnar vöðvaspennu sem getur haft mjög truflandi áhrif á hreyfingar.

Máttleysi hefur áhrif á jafnvægi og göngu og því er nauðsynlegt að vinna á móti einkennum eins og mögulegt er, til dæmis með æfingum. Mælt er með því að byggja sig upp jafnt og þétt með reglubundnum líkamsæfingum í stað þess að taka hressilega á því stöku sinnum. Gott ráð er að forgangsraða verkefnum til að spara orku og nota hjálpartæki ef þeirra er þörf.

Rétt er að hafa í huga að þættir eins og sýkingar, vökvaskortur eða of mikil áreynsla, jafnvel almennt álag, getur orsakað þreytu, slappleika eða jafnvel máttleysi. Þetta getur orsakað að fyrr tilkomnir erfiðleikar geta aukist. Þegar svona er ástatt er ekki um eiginlegt MS-kast að ræða enda ganga einkennin til baka þegar sýkingin eða hinir þættirnir eru að baki.

SJÓNTAUGABÓLGA

Sjóntaugabólga getur byrjað sem mis-sár verkur aftan eða við annað augað. Sjónin minnkar þá yfirleitt á nokkrum dögum og getur jafnvel horfið. Litaskyn getur minnkað eða horfið sem og að nema styrkleika birtu. Einnig getur viðkomandi séð óskýrt, svona eins og horft sé í gegnum matt gler. Þokusýn lýsir ástandinu vel, því það er eins og sjónin verði þokukennd og að þokunni létti ekki þó augun séu nudduð eða augnlokum blikkað. Eftir nokkurn tíma, allt frá nokkrum dögum upp í vikur dregur úr einkennum og sjónin fer að verða eðlileg aftur. Sumir fá þó varanleg einkenni með verri sjón og breyttu litaskyni.

Sjóntaugabólga kemur yfirleitt einungis í annað augað í senn. Sterameðferð getur flýtt umtalsvert fyrir bata og er oft beitt, sérstaklega þegar sjóntruflun er töluverð eða verkur til staðar.

SKERÐING Á SAMHÆFÐUM HREYFINGUM OG SKJÁLFTI

Skerðing á samhæfðum hreyfingum á sér stað vegna bólgu í litla heila sem veldur truflunum á boðum frá heila til útstöðva þannig að stjórn og samhæfing fara ekki saman. Það veldur klunnahætti, óstöðugu göngulagi, skertum augn- og útlimahreyfingum og erfiðleikum með tal. Til dæmis getur verið erfitt að láta fingur hitta á nef með augun lokuð. Einkenni geta verið væg en geta líka verið það mikil að einstaklingur er sem ölvaður.

Í slæmum tilvikum getur einstaklingur upplifað skjálfta. Hann getur átt í erfiðleikum með að halda á glasi eða viðhalda ákveðinni líkamsstöðu. Stress og kvíði eykur auðveldlega á einkennin. Erfitt getur verið að meðhöndla slíkan skjálfta og stjórnleysi hreyfinga. Lyf hafa takmörkuð áhrif þannig að endurhæfing og aðlögun að breyttum aðstæðum er oft eina lausnin. Iðjuþjálfi getur gefið góð ráð. Í stöku tilfellum geta svo kallaðar botulinum-sprautur (botox) hjálpað.

SKYNTRUFLANIR

Skyntruflanir geta verið til staðar, hvort sem húð er snert eða ekki. Skynjunin getur verið minnkuð, aukin, breytt eða öðruvísi en eðlilegt er. Skyntruflanir geta verið vægar, frá dofa sem vart truflar viðkomandi, upp í illþolanlegan verk. Svo virðist vera sem skyntruflanirnar komi frá húðinni en um er að ræða truflun á taugaboðum í heila eða mænu.

Skyntruflanir geta verið margvíslegar; náladofi, tilfinningaleysi í húð, ofurnæmni, breyting á hitaskynjun í húð, svo sem brunatilfinning (eins og húðsvæðið sé yfir gasloga) eða kuldi (innri kuldi, beinverkir, hand- og fótakuldi), kláði/ofsakláði, verkur eða þyngsli fyrir brjósti og almenn óþægindi í húð (til dæmis eins og haft sé gúmmíband um úlnlið, ökkla eða brjóstkassa).

Tilfinningin frá húðinni getur einnig verið óþægileg, jafnvel sársaukafull, við það eitt t.d. að fara í bað. Sumir upplifa þá tilfinningu að vera eins og með sandkorn í skónum þegar þeir ganga eða sem að þeir fletti blöðum með vettlinga á höndum þegar tilfinning í fingrum er lítil eða brengluð.

Í upphafi sjúkdómsferils geta skyntruflanir verið hluti af eða eitt einkenna í kasti sem hverfa þegar kastið gengur yfir. Síðar í sjúkdómsferlinu geta þær orðið meira viðvarandi og geta verið breytilegar í styrk og eðli.

Skyntruflanir valda stundum erfiðleikum í kynlífi. Slíkar truflanir skipta miklu máli og er full ástæða til að bera þær undir lækni eða hjúkrunarfræðing. Sjá einnig umfjöllun um áhrif MS á kynlíf HÉR.

SPASMI og VÖÐVASPENNA

Spasmar felast í auknum ósjálfráðum vöðvasamdrætti (auknum vöðvatónus) sem getur orsakast af þreytu, álagi, sýkingum, verkjum og öðrum þáttum, eins og líkamsstellingu, og geta valdið sársauka. Aukinn vöðvasamdráttur veldur vöðvastífleika sem veldur erfiðleikum við hreyfingu handa og fóta og dregur úr þreki og jafnvægi. Erfitt getur reynst að beygja útlim um liðamót og jafnvel getur vöðvi fests í ákveðinni stöðu. Vöðvaspenna getur meðal annars valdið vandræðum við gang og með tal, kyngingu og þvagblöðru.

Klónus eru hraðir, taktfastir vöðvakippir sem koma oftast fram í fótum um ökkla. Spasmar og vöðvaspenna geta staðið yfir í stuttan eða lengri tíma. Hægt er að meðhöndla spasma og vöðvaspennu með sjúkraþjálfun og krampahamlandi lyfjum. Hvers kyns hreyfing, sjúkraþjálfun og teygjur eru grundvallaratriði í meðferð ásamt réttri líkamstöðu í hvíld. Einnig er mikilvægt að einstaklingurinn sjálfur reyni að átta sig á hvað getur valdið og bregðist við, en þreyta, svefnleysi, líkamlegt eða andlegt álag og sýkingar geta öll haft áhrif.

SVEFNRÖSKUN

Svefntruflanir eru ekki dæmigerð MS-einkenni en eru samt algengar og oft ógreint vandamál. Nauðsynlegt er að greina og meðhöndla slíkar truflanir þar sem það getur bætt lífsgæði verulega. Svefntruflanirnar, þar á meðal svefnleysi, kæfisvefn og fótaóeirð, tengjast þreytu sem er algengt MS-einkenni. Verkir geta einnig valdið svefnröskunum. Þreyta vegna svefnleysis getur haft veruleg áhrif á getu einstaklingsins í daglegu lífi.

Hægt er að ráða bót á svefnleysi með einföldum aðgerðum og æfingum sem finna má HÉR. Dugi það ekki til er rétt að bera vandann undir lækni.

SVIMI

Svimi er algengt MS-einkenni og getur stafað af taugaskaða á svæðum sem samræma skynjun og viðbrögðum við upplýsingum sem einstaklingurinn fær frá augum og útlimum um líkamsstöðu sína. Þegar svimi eða jafnvægisleysi er viðvarandi getur sjúkraþjálfari lagt hönd á plóg með styrktar- og jafnvægisæfingum auk þess að gefa ráð með líkamsstöðu. Stuðningshjálpartæki koma að gagni ef fólki hættir til að hrasa eða detta.

Rétt er að hafa í huga að svimi er algengt einkenni meðal fólks og getur orsakast af mörgu öðru en MS.

TALERFIÐLEIKAR

Talerfiðleikar eru mismunandi. Málstol er sjaldgæft einkenni MS en það er þegar einstaklingur á erfitt með að finna orð eða skilja aðra. Algengari einkenni eru þvoglumælgi eða óskýrt tal og að raddstyrkur og radd- eða taltaktur truflast. Talerfiðleikar aukast ef einstaklingur er undir álagi. Talmeinafræðingar geta veitt góða aðstoð.

TVÍSÝNI OG AUGNTIN

Tvísýni orsakast yfirleitt af truflun í heilastofni sem er neðst í heila og tengir hann við mænu, en þar eru taugar sem fara til augnvöðva. Trufluð taugaboð í þessum taugaboðum geta orsakað tvísýni. Tvísýni getur verið til annarrar eða beggja hliða eða verið upp á við, og henni getur fylgt sérstakt tif eða sláttur í sjónsviðinu vegna samtímis truflana í fylgihreyfingum augnanna. Rykkjast þá augun ósjálfrátt taktfast til þeirrar hliðar sem horft er til og nefnist slík truflun augntin (e. nystagmus). Við það upplifir fólk að myndin sem það sér, hoppi upp og niður eða til hliðanna. Augntini fylgir oft svimatilfinning. Leita skal strax til augnlæknis og alls ekki má aka bifreið á meðan þetta ástand varir.

VERKIR

Verkir hjá einstaklingum með MS geta orsakast af MS-sjúkdómnum en líka tengst stoðkerfinu, til dæmis vegna hreyfihömlunar einstaklingsins. Til eru taugaverkir sem geta komið skyndilega en vara stutt, til dæmis Lhermitte´s einkennið. Það stafar af truflun ofarlega í hálsmænu og lýsir sér eins og rafstraumur niður bak og jafnvel út í útlimi þegar einstaklingur beygir höfuðið fram. Önnur tegund taugaverkja lýsir sér eins og rafstraumsverkir öðrum megin í andliti, svo kallaðir þríburataugaverkir (e. trigeminal neuralgia) en þríburataugin stýrir því að kyngja og tyggja. Verkirnir koma fram þegar viðkomandi tyggur, kyngir, brosir eða burstar tennur.

Taugaverkir tengjast oft truflunum í skyni, sjá Skyntruflanir hér að ofan, og getur einstaklingur fundið ekki eingöngu fyrir dofa, heldur náladofa, aukinni snertiviðkvæmni, kulda, brunatilfinningu o.fl. Tiltölulega algeng einkenni við MS-skemmdum í mænu eru dofi og ónot í höndum og fótum. Eigi einstaklingur við aukna stífni í útlimum að etja fylgir því oft dofi, ónot eða verkir.

Verki er hægt að meðhöndla með lyfjum og sjúkraþjálfun. Einnig er gagnlegt að hreyfa sig og gera vöðvateygjur daglega, gefa sér tíma í reglulega slökun og halda „sársaukadagbók“ til að læra á sjálfan sig. Með því er hægt að forðast aðstæður sem geta framkallað verki. Í einhverjum tilfellum er hægt að þjálfa athyglina frá sársaukanum á meðan verkirnir standa yfir, þ.e. að færa sársaukann frá því að vera í forgrunni til að vera meira í bakgrunni, með því til dæmis að „temja hugann“ eða hafa eitthvað áhugavert og skemmtilegt fyrir stafni.

Jafnvel getur iðjuþjálfi eða sjúkraþjálfari aðstoðað við að yfirfara aðstæður á heimili eða á vinnustað með tilliti til líkamsstöðu við vinnu og hvíld og eftir atvikum ráðlagt um notkun hjálpartækja.

Verkir geta aukist við hita, kulda, eftir lélegan svefn, þreytu, hreyfierfiðleika, lágt sjálfsmat, einmanaleika eða þunglyndi. Þá getur hjálpað að leita lausna við þessum einkennum samhliða meðhöndlun verkja.

ÞREYTA

Þreyta er algengt einkenni MS. Stundum er MS-þreytu ruglað saman við leti áður en sjúkdómurinn er greindur en sumir upplifa þreytu sem fyrsta einkenni MS. MS-þreyta er ekki venjuleg þreyta sem eðlilegt er að fólk finni fyrir eftir áreynslu eða erfiðan dag. MS-þreyta er íþyngjandi þreyta sem gerir einstaklingi erfitt fyrir í daglegum athöfnum. Þreytan hverfur yfirleitt ekki eftir hvíld og er ekki auðveldlega hrist af sér. Enn fremur finnst mörgum önnur einkenni MS versna við þreytu.

MS-þreyta getur verið bæði líkamleg og hugræn. Hugræn MS-þreyta getur haft áhrif á skammtímaminnið, einbeitingu og orðanotkun, sjá nánar HÉR. MS-þreyta er talin vera sambland hægfara taugaboða og vöðvaslappleika. Ýmislegt annað getur haft áhrif á eða orsakað þreytu, s.s. minni hreyfing, sýkingar, svefnleysi og lyf. Þreyta og áhugaleysi er líka einkennandi fyrir þunglyndi, sjá Þunglyndi hér fyrir neðan.

Gott er að bera óútskýrða þreytu undir lækni. Að öðru leyti getur hjálpað að lifa heilbrigðu og reglusömu lífi, huga vel að næringu, forgangsraða verkefnum og gefa sér hvíldartíma til að spara orku í allt það skemmtilega og nauðsynlega í lífinu. Ef þörf er á að nota hjálpartæki í daglegu lífi getur notkun þeirra komið að gagni við að spara orku og minnka þreytu.

ÞVAGBLÖÐRUVANDAMÁL

Allt að 75% einstaklinga með MS, bæði konur og karlar, eiga í einhvers konar vandræðum með tæmingu þvagblöðrunnar, sérstaklega þeir sem eiga erfitt með gang. Það er vegna þess að tenging taugaþráða á milli mænu og þvagblöðru er fyrir neðan tengingu mænu til fóta og boð um nauðsyn tæmingar þvagblöðru ná því ekki eðlilega til og frá heila. Það getur komið fyrir að fólki verður „brátt“ og nær stundum ekki á salerni í tæka tíð.

Erfiðleikar með þvagblöðruna eru þó ekki alltaf MS-sjúkdómnum að kenna.

Vandamálin geta verið:

* Ofvirk þvagblaðra: Stöðug og skyndileg þörf fyrir að tæma blöðruna. Taugarnar senda boð til blöðru um tæmingu þó aðeins lítið magn af þvagi sé í blöðru.

* Lausheldni: Erfiðleikar með að halda þvagi. Oft og skyndileg þörf fyrir losun.

* Erfiðleikar við að tæma blöðruna: Einstaklingur getur bæði haft vandamál með að byrja þvaglát en einnig að hafa ekki tilfinningu fyrir því hvort blaðran sé tóm. Þvagflæðið er ekki mikið og kemur með hléum. Þetta kallar á tíðar klósettferðir og jafnvel þvagleka á milli þeirra.

Margir bregðast við þvagvandamálum með því að drekka minna til að forðast salernisferðir en það er ekki heppilegt og eykur meðal annars hættu á þvagfærasýkingu.

Mikilvægt er að tæma alltaf þvagblöðruna. Til að tæma betur er gott ráð að prófa að halla sér fram og/eða til hliðar á meðan setið er á salerninu. Karlmenn gætu þurft að setjast á salernið í stað þess að standa.

Ákveðnar tegundir matar og drykkja erta þvagblöðruna; drykkir sem innihalda koffín, áfengi, drykkir sem innihalda mikið af litarefnum, drykkir úr sítrusávöxtum og mikið kryddaður matur. Hægt er að halda „dagbók“ eða skrá yfir hvað maður drekkur og borðar til að sjá hvaða matartegundir hafi áhrif á blöðruna.

Gott er, bæði fyrir konur og karla, að þjálfa þvagblöðruna og gera grindarbotnsæfingar reglulega. Til eru ýmis lyf sem geta hjálpað til dæmis við ofvirkri þvagblöðru og því ráð að hafa samband við lækni. Stundum er einstaklingum vísað til þvagfæralækna.

Til eru þvagbindi og –buxur í öllum stærðum og gerðum fyrir bæði konur og karla. Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) greiða mestan hluta kostnaðar en heilbrigðisstarfsmaður þarf að sækja um úttektarskírteini til SÍ fyrir hönd einstaklingsins sem gildir í nokkur ár til úttektar í völdum verslunum. Sjá nánar undir Hjálpartæki HÉR á vefsíðunni.

ÞVAGFÆRASÝKING

Þvagfærasýking er nokkuð algeng meðal einstaklinga með MS. Hana skal taka alvarlega og leita skal til læknis/heilsugæslu til að fá meðhöndlun.

Einkenni þvagfærasýkingar eru svipaðar truflunum á þvagblöðrustarfsemi, sjá Þvagblöðruvandamál hér að ofan. Mikilvægt er að vera á verði gagnvart einkennum þvagfærasýkingar því hún getur aukið á MS-einkenni og líkst MS-kasti. Einnig þarf að meðhöndla sýkinguna með lyfjum því annars er möguleiki á því að sýkingin fari í nýrun.

Staðbundin einkenni geta verið tíð þvaglát, lítið þvag í einu, mikil þvaglátsþörf, sviði við þvaglát, þvagið er óeðlilegt að sjá, kviðverkur eða verkur yfir blöðrustað og þvagleki/þvagteppa. Einstaklingur getur fundið fyrir einu eða fleiri einkennum. Almenn einkenni eru hiti, hrollur, slappleiki, ógleði/uppköst eða niðurgangur. Þvagfærasýking getur þó einnig verið án þess að líkamshiti hækki.

Góð fyrirbyggjandi ráð við þvagfærasýkingu er m.a. að drekka vel, helst um 8-10 glös af vökva á dag (vatn er best og jafnvel trönuberjasafi) og jafnvel taka trönuberjatöflur reglulega (fást í heilsuhillum verslana eða í apótekum). Gæta þarf þess að tæma þvagblöðruna vel og viðhalda góðu hreinlæti. Þá er ráð að hafa þvaglát eftir kynlíf, forðast krem og sprey á kynfærasvæðið, fara í sturtu frekar en í bað og að lokum að vera í nærbuxum (helst úr bómull) sem þrengja ekki að þvag- og kynfærum.

Ef grunur vaknar um þvagfærasýkingu skal hafa samband við heimilislækni/hjúkrunarfræðing á heilsugæslu sem gæti óskað eftir þvagprufu til að senda í ræktun. Læknir getur ákveðið að setja einstakling samdægurs á sýklameðferð séu einkenni mjög skýr eða einstaklingur fengið þvagfærasýkingar áður. Við endurteknar sýkingar og þegar einstaklingur hefur lært að meta einkenni sín er stundum gefinn út fjölnota lyfseðill eða einstaklingur látinn taka smáskammta sýklalyf daglega sem fyrirbyggjandi meðferð.

 

Frekari upplýsingar

Miklar og misgóðar upplýsingar er að finna á veraldarvefnum og er nauðsynlegt að skilja á milli þess sem er áreiðanlegt og þess sem er það ekki. Vefsíða MS-félagsins inniheldur aðeins upplýsingar og efni frá traustum aðilum.

MS-félagið hefur gefið út fræðslubæklinga um MS-sjúkdóminn. (hlekkur á Útgáfa) Upplýsingar um líkamleg einkenni er að finna í bæklingnum Almennur fróðleikur og upplýsingar um hugræn og tilfinningatengd einkenni í bæklingunum Hugræn færni, Persónuleiki og háttalag og Tilfinningaviðbrögð. 1 2 3 .