Viðtalshópur

Boðið er upp á viðtöl við neðantalda einstaklinga sem hafa áralanga reynslu og víðtæka þekkingu á MS-sjúkdómnum eða þekkingu á að ræða um viðkvæm málefni.

Slík viðtöl gagnast sérstaklega vel nýgreindum einstaklingum og aðstandendum þeirra en við greiningu vakna oft margar spurningar sem gott er að fá svör við milliliðalaust.

Einnig er hægt að fá ráðgjöf hjá MS-félaginu eða óska eftir fræðsluerindi fyrir til dæmis kennara, skólastjórnendur og/eða nemendur, leiðbeinendur og félaga í félagsstarfi, vinahópa eða ættingja.

Berglind Guðmundsdóttir, fyrrum formaður

Berglind

Ég greindist með MS 1982 þá 22 ára. Fyrstu einkenni voru dofi í fótum og sjón- truflanir. Ég hafði einnig fundið fyrir óeðlilegri þreytu frá barnsaldri. Ég fékk köst sem gengu til baka til ársins 2000 en þá fóru köstin að skilja eftir sig einkenni, aðallega í skertri færni í fótum. Ég notast núna við eina hækju.

Þegar ég greindist voru engin MS-lyf til. Ég fór fyrst á MS-lyf árið 2002 og er enn á lyfjum. Ég nota einnig einkennatengd lyf við taugaverkjm. Ég fylgist vel með umræðu um lyf og þjónustu við MS-fólk og hef kynnt mér umræðu um mataræði og hreyfingu. Ég hef farið í skóla og á vinnustaði með fræðslu um MS.

Það má senda mér tölvupóst á berglind@msfelag.is eða hringja á skrifstofu í síma 568 8620 leggja inn skilaboð og ég mun hafa samband.

 

 

 

Bergþóra Bergsdóttir,  fræðslufulltrúi MS-félagsins

Bergthora

Ég greindist með MS 2004, þá 41 árs. Fyrstu einkenni gerðu þó vart við sig þegar ég var þrítug. Margir samverkandi þætti valda því að ég notast nú að mestu við hjólastól. Nota MS-lyf en hef enga reynslu af einkennatengdum lyfjum.

Hef viðað að mér þekkingu á MS og afleiðingum sjúkdómsins í gegnum árin með því að fylgjast vel með því sem er að gerast í „MS-heiminum“ og með samtölum mínum við fólk með MS og aðstandendur þeirra.

Þýddi þrjá og skrifaði tvo fræðslubæklinga um líkamleg, hugræn og tilfinningatengd einkenni MS, sem útgefnir voru hjá félaginu í febrúar 2017. Hef haldið ýmis fræðsluerindi fyrir MS-félagið. Hægt er að skrifa á netfangið bergthora@msfelag.is eða hringja á skrifstofu í síma 568 8620 og skilja eftir nafn og símanúmer og ég mun þá hringja til baka.

 

 

 

Helga Kolbeinsdóttir, guðfræðingur, starfsmaður MS-félagsins og ritari NMSR

HelgaMín fyrstu kynni af MS-sjúkdómnum eru sem aðstandandi, en Hafdís Hannesdóttir er góður fjölskylduvinur. Síðar greindist kona bróður míns með sjúkdóminn.

 Í starfi mínu sem prestur hef ég öðlast víðtæka reynslu í mannlegum samskiptum og að mæta fólki í bæði sorg og gleði. Samhliða starfi mínu hjá félaginu stunda ég nám í fjölskylduráðgjöf hjá Endurmenntun Háskólans, þar sem áhersla er lögð á að sjá einstaklinginn sem hluta af stærri heild, og bæta og efla samskipti innan fjölskyldna, en almennt hefur það áhrif á alla fjölskylduna þegar einstaklingur innan hennar greinist með langvinnan sjúkdóm.

 Ég er á skrifstofu félagsins alla jafna frá 10-15 virka daga og er fólki velkomið að kíkja til mín í létt spjall eða samtal. Einnig er hægt að skrifa á netfangið helgak@msfelag.is eða hringja á skrifstofu í síma 568 8620 og skilja eftir nafn og símanúmer og ég mun þá hafa samband.

 

Sigurbjörg Ármannsdóttir, fyrrum formaður

 SibbaÉg fékk fyrsta MS-kastið þegar ég var 16 ára árið 1966. Mér var þá sagt að þetta væri vírus sem gengi yfir og tók það nærri tvö ár. Síðan var ég einkennalaus í 5 ár. Eftir annað kast fékk ég MS-greiningu 1974. Með árunum smáversnaði mér og 1988 var ég komin í hjólastól. Í dag er ég hins vegar gangandi og bý við mjög góða heilsu með fáum takmörkunum.

Ég hef ekki notad MS-lyf en nota einkennatengd lyf. Ég stunda líkamsrækt og held mér þannig í góðu formi.

Ég hef verið virk í starfi MS-félagsins frá 1980 og var formaður í 6 ár. Í gegnum árin hef ég talað við mikinn fjölda MS-fólks og tel mig búa að reynslu sem getur gagnast fólki með MS.

Hægt er að skrifa mér á netfangið sjarm@simnet.is eða hringja í síma félagsins 568 8620 og panta viðtal.