Af gefnu tilefni - áskorun til stjórnvalda!

Stöð 2 hefur tekið til umfjöllunar mál Margrétar Sigríðar sem hefur verið föst á spítala, langstærstan hluta í einangrun án þess að vera sjálf veik, síðan í janúar á þessu ári og nú undanfarið í bráðabirgðaúrræði. MS-félag Íslands harmar þessa stöðu Margrétar og telur nauðsynlegt að grípa strax til aðgerða til að tryggja Margréti örugga búsetu og viðeigandi stuðning.
 
Vandamálið er ekki að yfirvöld viti ekki af hennar aðstæðum enda hefur ítrekað verið bent á stöðu Margrétar, þar á meðal af MS-félagi Íslands, og biðlað til heilbrigðisráðherra, ráðuneytisins og Sjúkratrygginga Íslands að leysa málið. Á meðan málið færist á milli ríkisstofnana eru mannréttindi Margrétar fótum troðin svo mánuðum skiptir og virðist hreinlega skorta nægilegan vilja hjá stjórnvöldum til að ganga í málið og leysa það.
 
Við krefjumst tafarlausra aðgerða fyrir Margréti Sigríði. Nóg er komið!
 
Stjórn MS-félags Íslands