Ný og uppfærð COVID-19 ráð fyrir fólk með MS

Stærsta alþjóðlega ráðstefnan í MS rannsóknum fór fram í september - MSVirtual2020. Stuttu síðar kölluðu alþjóðasamtök MS félaga (MSIF) aftur saman alþjóðlegan hóp leiðandi MS taugalækna til að fara yfir og uppfæra COVID-19 ráðleggingar fyrir fólk með MS. Niðurstöður úr rannsóknum frá nokkrum löndum og upplýsingar úr COVID-19 og MS gagnasöfnunarátakinu voru kynnt á ráðstefnunni og hafa þessi gögn, ásamt fyrirliggjandi rannsóknum sem gefnar hafa verið út um MS og COVID-19, haft áhrif á ráðleggingarnar.

 

Sjá uppfærðu alþjóðlegu ráðleggingarnar hér.

 

„Alheimsfaraldurinn COVID-19 hefur kallað á aukið samstarf þvert á MS-hreyfinguna. Ég er stolt af því að sjá hvernig alþjóðasamfélagið hefur sameinast í að safna hágæða gögnum og semja tímanlegar, hagnýtar og gagnreyndar ráðleggingar.“

Brenda Banwell, formaður alþjóðlega lækninga- og vísindaráðs MSIF

 

Uppfærðu ráðleggingarnar endurspegla nokkrar mikilvægar breytingar á skilningi okkar á því hvernig fólki með MS farnast með COVID-19. Það eitt að vera með MS eykur hvorki líkurnar á að fá COVID-19 sýkingu eða fá alvarleg veikindi af henni. Þetta eru mjög mikilvægar upplýsingar nú þegar við nálgumst níu mánuði í heimsfaraldri án þess að merki séu um að við sigrumst á honum á næstunni. Fólk með MS þarf að hafa jafnvægi í því að vernda sig gegn áhættu á sýkingu og sinna athöfnum sem hjálpa þeim að viðhalda góðri heilsu og vellíðan.

Nýjustu vísbendingar sýna þó að ákveðnir hópar fólks með MS eru í meiri hættu á að fá alvarlegt tilfelli af COVID-19. Sumir áhættuþáttanna sem tilgreindir eru endurspegla það sem lýst hefur verið fyrir almenningi, til dæmis aldur, offita og undirliggjandi sjúkdómar, s.s. sykursýki og hjarta- eða lungnasjúkdómar. En sumir af þessum áhættuhópum eru sértækir fyrir MS, til dæmis þeir sem eru með síversnun í MS. Ítarlegri upptalning yfir fólk með MS sem getur verið í aukinni hættu á alvarlegri COVID-19 sýkingu er að finna í ráðleggingunum sjálfum. Þar eru einnig góð ráð um hvað fólk með MS getur gert til að draga úr áhættunni á að fá kórónuveiruna, sérstaklega þar sem önnur bylgja af smitum er farin af stað í mörgum löndum.

Þýðingarmiklar upplýsingar sem fengist hafa í COVID-19 og alþjóðlega MS gagnasöfnunarátakinu eru að einn flokkur sjúkdómsbreytandi meðferðar við MS tengist því að fá alvarlegra tilfelli af COVID-19. Í uppfærðu yfirlýsingunni eru ráð fyrir fólk með MS og lækna þeirra til að hafa í huga þegar hefja þarf eða breyta meðferð meðan á COVID-19 heimsfaraldrinum stendur. Það er mikilvægt að fólk með MS hætti ekki meðferð án þess að ræða við lækninn sinn. Ræða ætti um hið flókna jafnvægi áhættu og ávinnings þess að vera á MS meðferð með hliðsjón af aðstæðum hvers og eins.

 

„Í sumum löndum eru þessar ráðleggingar það eina sem læknar hafa til hliðsjónar í viðræðum sínum við MS-sjúklinga um umönnun þeirra meðan á heimsfaraldrinum stendur. Það er mikilvægt að ráðleggingarnar endurspegli nýjustu upplýsingarnar sem við höfum sem alþjóðlegt samfélag.“

Prófessor Bassem Yamout, forseti MENACTRIMS og meðlimur í framkvæmdastjórn í alþjóðlegu lækna- og vísindaráði MSIF

 

Hingað til hefur gögnum um næstum 9.000 manns með MS frá 82 löndum verið safnað í COVID-19 og alþjóðlega MS gagnasöfnunarátakinu hingað til. Þetta mikla átak hefur verið mögulegt vegna samstarfs og stuðnings fjölda fólks og félaga í alþjóðlegu MS-hreyfingunni. MSIF og samstarfsaðilar þess í MS Data Alliance vilja þakka öllum þeim sem hafa lagt sitt af mörkum til framtaksins á einhvern hátt. Þessir aðilar höfðu þann metnað að bregðast hratt við og finna svör til að upplýsa þá sem annast fólk með MS meðan á heimsfaraldrinum stendur og sú hefur orðið raunin.

 

„Verandi gagnafræðingur er svo gefandi að sjá hvernig gögnin sem við höfum safnað frá læknum og fólki með MS um allan heim verða að ráðleggingum sem við getum gefið sjúklingum. Gögn geta og munu bjarga mannslífum!“

Liesbet Peeters prófessor, formaður MS Data Alliance

 

Frétt þýdd og endursögð af heimasíðu MSIF

 

Leiðbeiningar landlæknis fyrir einstaklinga með áhættuþætti fyrir alvarlegri COVID-19 sýkingu

Uppfærð yfirlýsing og ráð frá MSIF á íslensku

Uppfærð yfirlýsing og ráð frá MSIF á ensku

COVID.is

 

Heimasíða MS Data Alliance

Heimasíða MSIF

Heimasíða gagnasöfnunarátaksins

 

Fyrri fréttir:

Frétt 3.7.2020

Frétt 8.5.2020

Frétt 13.3.2020

Frétt 4.3.2020

Frétt 12.2.2020