Hvers vegna breytist persónuleiki og háttalag við MS?

 Það geta verið bæði sálfræðilegar og líffræðilegar ástæður fyrir því að MS valdi breytingum á persónuleika og háttalagi MS-greindra en einnig geta aukaverkanir af lyfjameðferð haft slík áhrif.

 

Sálfræðilegar orsakir

Einstaklingar með MS lifa með sjúkdómnum á mismunandi hátt og fer það eftir persónuleika og lífsreynslu hvers og eins. Mikil áskorun felst í því að takast á við MS-greiningu og vinna með þær breytingar á líðan og lífsháttum sem greiningin getur haft í för með sér.

Sálfræðilega getur verið um ákveðinn missi eða áfall að ræða. Talað er um sorgarferli sem fólk þarf að fara í gegnum og er misjafnt hvernig til tekst. Missir fyrr á lífsleiðinni eða sorglegir atburðir geta aukið álagið án þess að einstaklingurinn geri sér grein fyrir því.

Það er eðlilegt að einstaklingar sem hafa fengið MS-greiningu séu stundum daprir eða eigi erfitt með að einbeita sér. Áhrif missis og breytinga á högum vegna sjúkdómsins geta valdið því að þeir bregðast við á annan hátt en þeim var áður eiginlegt, t.d með gremju, pirringi, skyndilegum gráti eða kvíða, reiði eða bráðlyndi. Hugsun getur orðið óskýr og raunveruleikinn erfiðari viðfangs en auk þess geta þeir þjáðst af þreytu og slitróttum nætursvefni.

Áfall sem kemur oft í kjölfar sjúkdómsgreiningar dvínar oftast þegar frá líður. Hins vegar geta sjúkdómsköst, álag eða aðrir erfiðleikar hæglega valdið nýjum áföllum. Þá getur hjálpað að leita aðstoðar fagmanna eða ræða málin við fjölskyldu og vini.

 

Líffræðilegar orsakir

Líffræðilegar orsakir geta einnig valdið því að háttalag og skap breytist með MS-sjúkdómnum. MS-breytingar í heila geta valdið frávikum eða breytingum á hegðun og persónuleika MS-greindra. Staðsetning og umfang þessara breytinga ræður miklu þar um.

Algengustu breytingar á persónuleika og háttalagi vegna MS eru:

* Þunglyndi

* Tilefnislaus bjartsýni

* Falið þunglyndi (þunglyndi falið á bak við glaðlegt yfirbragð)

* Tilfinningasveiflur

* Tilfinningadoði

* Stjórnlaus hlátur og/eða grátur

* Brengluð sjúkdómsskynjun (einkenni van- eða ofmetin)

* Hömlulaus hegðun (skert dómgreind, skortur á samúð eða getu til að skynja eða túlka tilfinningar og skaplyndi annarra)

* Minna frumkvæði (sinnuleysi)

 

Aukaverkanir lyfjameðferðar

Lyf geta stundum valdið tímabundnum breytingum á háttalagi eða skapi. Ráðlagt er að spyrja lækninn um mögulegar aukaverkanir þegar rætt er um lyfjameðferð. Ef þú ert nú þegar í lyfjameðferð og grunar að skapbreytingar stafi af aukaverkunum skaltu ræða um það við lækni eða hjúkrunarfræðing. Hins vegar geta lyf reynst vel við tilfinningavanda eins og til dæmis þunglyndi og kvíða.