Þreyta og svefntruflanir

MS-þreyta

Góð ráð til að takast á við þreytuna:

 • Hvíld er ekki síður mikilvæg en verkefnin sem þú ætlar þér að vinna. Settu hvíldarstundir inn í daglega rútínu til að spara orku í allt þetta skemmtilega og nauðsynlega í lífinu. Taktu hvíldarstundirnar áður en þú ferð fram úr sjálfri/sjálfum þér.
 • Vertu meðvituð/-aður um hvað er góð hvíld fyrir þig. Að hvíla er meira en að leggja sig eða sofna. Prófaðu til dæmis að gera slökunaræfingar, fara í göngutúr eða hlusta á þægilega tónlist.
 • Reyndu að fá nægan og endurnærandi nætursvefn. Svefnvandi er ekki óalgengur meðal fólks með MS. Eigir þú við svefnvanda að stríða má finna góð ráð hér.
 • Lifðu heilbrigðu og reglusömu lífi, hugaðu að fjölbreyttu og hollu mataræði og því að halda blóðsykri jöfnum.
 • Vertu meðvituð/-aður um hvers konar þreytu þú finnur fyrir. Ef þér finnst þú andlega þreyttur þá er kannski best að forðast að leggja sig í sófann og hringja jafnframt í einhvern sem gæti ausið yfir þig vandamálum sínum og dregið þannig úr orku þinni (orkusuga).
 • Forgangsraðaðu verkefnum og finndu ráð til að spara orku við framkvæmd þeirra. Skipta einhver verkefni minna máli en önnur? Má skipta einhverju verkefni upp í smærri verkefni eða fela það öðrum?
 • Mikilvægi líkamsræktar og daglegrar útiveru er óháð líkamlegri getu og er oft vanmetin en hún eykur bæði líkamlega og andlega vellíðan. Hreyfing getur dregið úr þreytu, aukið þrek og styrk og bætt svefn, sem aftur getur aukið orku og minnkað þreytu. Reyndu að hreyfa þig eitthvað á hverjum degi - með æfingum eða gönguferðum.
 • Þreyta og áhugaleysi er einkennandi fyrir þunglyndi. Sýnt hefur verið fram á að meira er um þunglyndi hjá fólki með MS borið saman við einstaklinga með aðra alvarlega sjúkdóma. Þunglyndi ber að taka alvarlega. Það sem þú gætir gert er meðal annars að reyna að gera eitthvað sem veitir þér ánægju, þú gætir leitað þér upplýsinga og ráðgjafar um það sem plagar þig eða þú hefur áhyggjur af, þú gætir kynnt þér núvitund eða hugræna atferlismeðferð (sjá hér) eða talað (um vandamál þín) við aðra, svo sem vini, fjölskyldu eða fagfólk (t.d. sálfræðinga, lækna, hjúkrunarfræðinga, sjúkraþjálfara eða iðjuþjálfa). Sjá nánar um þunglyndi hér.
 • Forðastu of mikið álag og stress.
 • Skammtaðu þér ákveðinn tíma til að vinna verkefni. Ákveddu til dæmis að ryksuga í 10 mínútur í senn frekar en að klára að ryksuga íbúðina áður en þú tekur þér hvíld.
 • Notaðu hjálpartæki þegar þú getur. Þau geta komið að gagni við að spara orku. Hafðu til dæmis stól innan seilingar í eldhúsi og baðherbergi.
 • Ekki er ólagengt að MS-þreyta valdi því að fólk detti út af vinnumarkaði eða þurfi að fækka við sig vinnustundum. Væri hægt að breyta vinnutíma eða starfsaðstöðu til að gera vinnuna auðveldari?
 • Mörgum finnst þreyta aukast við hita, svo sem sótthita eða háan lofthita. Þá er besta ráðið að taka hitastillandi lyf, forðast heitt bað, sauna og heita potta og halda sig í skugga fremur en í beinni sól.
 • Taktu ráðlagðan dagskammt af B-12 vítamíni. Skortur á B-12 vítamíni kemur fram sem þreyta, máttleysi, mæði, nálardofi í útlimum, niðurgangur og aum tunga. Hægt er að láta mæla magn B-12 vítamíns í blóði. Sjá nánar um B-12 hér.
 • Sum lyf valda sljóvgun og þreytu. Ræddu við lækni þinn um hvort rétt sé að breyta lyfjameðferð.
 • Ef ekkert af ofantöldu virkar, talaðu þá við heimilislækni þinn eða taugalækni. Lyf gætu hjálpað.

 

Fróðleiksmolar:

 • MS-þreyta er ekki auðveld viðfangs, sjá hér 
 • MS-þreyta er engin venjuleg þreyta. Fáðu hér góð ráð., sjá hér

 

Svefntruflanir

Rannsókn á yfir 2.300 MS-sjúklingum, sú fjölmennasta hingað til, og sem kynnt var í frétt National MS Society í október 2014, gefur  til kynna að svefntruflanir séu algengar og oft ógreint vandamál hjá MS-fólki. Svefntruflanirnar, þar á meðal svefnleysi, kæfisvefn og fótaóeirð, tengjast þreytu sem er algengt MS-einkenni. Þessi rannsókn sem og niðurstöður annarra svefnrannsókna benda til þess að greining og meðhöndlun svefntruflana geti bætt lífsgæði MS-fólks verulega.  

Um 70% þátttakenda sögðust upplifa að minnsta kosti eina svefntruflun. 38% voru með kæfisvefn, 32% með miðlungs til alvarlegt svefnleysi og 37% fundu fyrir fótaóeirð. Aðeins 4% þátttakenda höfðu fengið greiningu og meðferð á kæfisvefni, 11% vegna svefnleysis og 12% vegna fótaóeirðar. Um 30% þátttakenda upplifðu óeðlilega mikla syfju á daginn og yfir 60% þáttakenda tilkynntu um óeðlilega mikla þreytu sem tengdist svefntruflun. 

Nauðsynlegt er að meðhöndla svefntruflanir því þær geta aukið á MS-þreytu sem er eitt af algengustu einkennum í MS. Þreyta getur haft veruleg áhrif á getu einstaklingsins í daglegu lífi og er ein af aðal orsökum þess að MS-fólk hverfur snemma af vinnumarkaði. 

Fyrir marga dugar að ráða bót á svefnleysi með einföldum aðgerðum og æfingum. Fyrir aðra er ástæða til að hafa samband við heimilslæni því til eru slakandi lyf eða svefnlyf (t.d. Imovane eða "kvöldlyf") sem gætu hjálpað. Á vefsíðunni betrisvefn.is er hægt að fá upplýsingar um hugræna atferlismeðferð (HAM) við svefnleysi.  

 

Hér að neðan má fá góð ráð við svefntruflunum sem Aðalbjörg Albertsdóttir, fyrrum hjúkrunarfræðingur á tauga- og hæfingasviði Reykjalundar, setti saman 2012 (fengið úr gagnagrunni Up to date, þann 23.5. 2012. Leitarorð var Treatment of insomnia).: 

Heilbrigðar svefnvenjur (sleep hygiene)  

 • Sofðu einungis eins mikið og þú þarft til að finnast þú vera hvíldur og farðu svo úr rúminu.  

 • Haltu reglulegu svefnmunstri.  

 • Ekki neyða þig til að fara að sofa.  

 • Þjálfaðu reglulega í minnst 20 mínútur, helst 4-5 tímum fyrir háttatíma.  

 • Forðastu drykki með koffíni eftir hádegi.  

 • Forðastu áfengi fyrir háttinn.  

 • Forðastu reykingar, sérstaklega á kvöldin.  

 • Ekki fara svangur að sofa.  

 • Aðlagaðu umhverfi í svefnherberginu. 

 • Afgreiddu það sem veldur þér áhyggjum fyrir háttatímann. 

 Taktu stjórnina (Stimulus control therapy rules)  

 • Farðu einungis í háttinn þegar þú ert þreyttur.  

 • Ekki horfa á sjónvarp, lesa, borða eða hafa áhyggjur í rúminu. Rúmið á einungis að vera til að sofa í og stunda kynlíf.  

 • Farðu framúr rúminu ef þér tekst ekki að sofna innan 20 mínútna og farðu í annað herbergi. Ekki fara aftur í rúmið fyrr en þú ert orðinn þreyttur. Endurtaktu þetta eins oft og á þarf að halda alla nóttina.  

 • Stilltu vekjaraklukku á sama tíma alla morgna, líka um helgar.  

 • Ekki leggja þig að degi til. 

 

Hér má fá góð ráð og ábendingar um svefn og svefntruflanir á ensku frá National Sleep Foundation.