NÝ RANNSÓKN UM SVEFNTRUFLANIR Í MS

22. október 2014
Mynd með fréttinni: NÝ RANNSÓKN UM SVEFNTRUFLANIR Í MS

Ný rannsókn á yfir 2.300 MS-sjúklingum, sú fjölmennasta hingað til, gefur til kynna að svefntruflanir séu algengar og oft ógreint vandamál hjá MS-fólki. Svefntruflanirnar, þar á meðal svefnleysi, kæfisvefn og fótaóeirð, tengjast þreytu sem er algengt MS-einkenni. Þessi rannsókn sem og niðurstöður annarra svefnrannsókna benda til þess að greining og meðhöndlun svefntruflana geti bætt lífsgæði MS-fólks verulega.

FRÆÐSLUFUNDUR UM MATARÆÐI OG NÆRINGU 5. NÓVEMBER

20. október 2014
Mynd með fréttinni: FRÆÐSLUFUNDUR UM MATARÆÐI OG NÆRINGU 5. NÓVEMBER

Guðlaug Gísladóttir, næringarfræðingur á Landspítala Háskólasjúkrahúsi, mun halda erindi um um mataræði og næringu í MS-húsinu að Sléttuvegi 5, miðvikudaginn 5. nóvember kl. 17. Reikna má með að fyrirlesturinn og umræður standi yfir í um klukkutíma. Miklar umræður hafa verið um áhrif mataræðis og þarmaflóru á MS-sjúkdóminn á undanförnum misserum. Guðlaug hefur reynslu af því að ráðleggja fólki með taugasjúkdóma um mataræði og því er ekki að efa að fyrirlesturinn verður mjög áhugaverður fyrir okkur MS-fólk.

SVÖLURNAR KAUPA KROSSÞJÁLFA

17. október 2014
Mynd með fréttinni: SVÖLURNAR KAUPA KROSSÞJÁLFA

Á dögunum afhentu Svölurnar, góðgerðarfélag flugfreyja og flugþjóna, MS-félaginu krossþjálfa að gjöf, tæki sem þær keyptu fyrir styrk sem þær veittu félaginu í júní sl. Krossþjálfinn er frábært tæki fyrir MS-fólk þar sem aðeins þarf að hafa kraft í einum útlim til að geta nýtt sér tækið. Við átak frá einum útlim hreyfast hinir útlimirnir með þannig að hreyfingin verður heildstæð fyrir notandann. Það er ekki ofsagt að Svölurnar hafa stutt dyggilega við bakið á MS-fólki með höfðinglegum gjöfum til félagsins í gegnum tíðina og þakkar MS-félagið innilega fyrir gjöfina.

GÓÐI HIRÐIRINN VEITIR MS-FÉLAGINU FJÁRSTYRK

13. október 2014
Mynd með fréttinni: GÓÐI HIRÐIRINN VEITIR MS-FÉLAGINU FJÁRSTYRK

Sl. föstudag veitti Góði hirðirinn MS-félaginu styrk að fjárhæð 600.000 kr. til útgáfu fræðslubæklinga sem nú eru í vinnslu. MS-félagið þakkar Góða hirðinum kærlega fyrir styrkinn sem kemur að góðum notum. Nýir bæklingar um hugræn og tilfinningaleg einkenni MS-sjúkdómsins eru í vinnslu hjá félaginu og verða gefnir út í vetur. Þrátt fyrir að margir sæki sér upplýsingar um sjúkdóminn á netinu þá er það ekki það sama og að fá bækling í hendur.

BÍÓ Á MIÐVIKUDAGSKVÖLDIÐ - POPP OG KÓK

12. október 2014
Mynd með fréttinni: BÍÓ Á MIÐVIKUDAGSKVÖLDIÐ - POPP OG KÓK

Miðvikudaginn 15. október kl. 20 verður kvikmyndin „When I Walk“ sýnd í MS-húsinu. Myndin hefur vakið athygli MS-fólks úti í hinum stóra heimi en leikstjóri hennar er ungur kvikmyndagerðarmaður sem er með MS. Myndin fjallar um hvernig hann tókst á við greininguna og sjúkdóminn , leit hans að lækningu og sínum innri manni. Myndin er á ensku með enskum texta en áður en myndasýningin hefst mun Heiða Björg Hilmisdóttir, varaformaður MS-félagsins, segja frá myndinni. POPP OG KÓK í boði félagsins.

UPPSKERUHÁTÍÐ REYKJAVÍKURMARAÞONS

9. október 2014
Mynd með fréttinni: UPPSKERUHÁTÍÐ REYKJAVÍKURMARAÞONS

Uppskeruhátíð áheitasöfnunar Reykjavíkurmaraþons 2014 fór fram í gær. Aðalstyrktaraðili hlaupsins, Íslandsbanki, bauð til hátíðarinnar. Fyrir hönd MS-félagsins mættu Ólína Ólafsdóttir og Berglind Björgúlfsdóttir og tóku þær formlega á móti 1.278.833 kr. Án þess að metast við önnur góð og gegn velferðarmál þá fékk MS-félagið 18. hæsta styrkinn af 167 góðgerðarfélögum :-) TAKK TAKK TAKK, HLAUPARAR OG STUÐNINGSAÐILAR !!

MS-félagið býður upp á metnaðarfulla þjónustu fyrir félagsmenn sína, svo sem:

 

Ýmis námskeið, svo sem fyrir nýgreinda, börn, maka og foreldra MS-fólks, jafnvægis- og styrktarnámskeið, yoga, reiðnámskeið, minnisnámskeið, námskeið í virkni og vellíðan, HAM – hugræna atferlismeðferð og kynjabundin kynlífsnámskeið

 

Lyfjahóp sem leggur sig fram um að viða að sér nýjustu upplýsingum um lyfjamál og vera í forsvari gagnvart heilbrigðisyfirvöldum til að tryggja að MS-fólk njóti bestu mögulegrar meðferðar á hverjum tíma.

 

Fræðslu- og kynningarfundi - upptökur af flestum fundum eru settar á heimasíðuna sem þjónusta við þá sem ekki eiga heimangengt og fyrir landsbyggðarfólk

 

Landsbyggðarfundi til að færa fólk á landsbyggðinni nær félaginu – kynning á félaginu, lyfjamálum og hjálpartækjum

 

Íbúð til útleigu til skemmri tíma að Sléttuvegi 9 sem er aðallega nýtt af landsbyggðarfólki og MS-fólki búsettu erlendis

 

Viðtalstíma við formann félagsins – er sérstaklega vel tekið af nýgreindum og aðstandendum þeirra

 

MS-Setrið - stendur MS-fólki til boða - rekið skv. þjónustusamningi við Velferðarráðuneyti

 

Félagsráðgjafa – viðtalstímar á föstudögum frá kl. 10-13

 

Útgáfu tímarits, MeginStoðar, tvisvar á ári, auk bóka og bæklinga

 

Skrifstofu – opið daglega frá kl. 10-15

 

Þátttöku í Alþjóðadegi MS-félaga

 

Vefsíðu og fésbókarsíðu

 

Erlent samstarf

 

Nefndastarf

 

Ýmislegt annað ótalið

 

 

Forsíða 2. tölublað 2014

Leiðbeiningar:

Til að sjá nýjasta blaðið, smellið með músinni á myndina.

Til að sjá eldri blöð, smellið á örvarnar.

Leiðbeiningar:

Til að sjá nýjustu myndirnar, smellið með músinni á myndina.

Til að sjá myndasafnið, smellið á örvarnar.