NÁMSKEIÐ FYRIR NÝGREINDA: SKRÁNING HAFIN

28. ágúst 2015
Mynd með fréttinni: NÁMSKEIÐ FYRIR NÝGREINDA: SKRÁNING HAFIN

MS-félagið leggur mikið upp úr því að fræða félagsmenn og þá sérstaklega þá sem hafa nýlega fengið MS-greiningu og eru óöruggir um hvað hin nýja staða í lífinu þýðir. Næsta námskeið hefst þriðjudaginn 8. september. Sigríður Anna Einarsdóttir, félagsráðgjafi, er leiðbeinandi. Námskeiðið er fyrir MS-fólk með nýlega greiningu (6 mán. til 3 ár) og byggir á fræðslu og umræðum. Markmið námskeiðsins er að fólk fræðist um MS, kynnist öðrum með sjúkdóminn og fái stuðning. Á dagskrá verða umræður um tilfinningaleg viðbrögð við sjúkdómsgreiningunni og áhrif MS á daglegt líf. Kynntar eru leiðir til að aðlagast betur sjúkdómnum og efla styrk þátttakenda.

JÓGA: NÁMSKEIÐ Í BOÐI FYRIR MS-FÓLK

27. ágúst 2015
Mynd með fréttinni: JÓGA: NÁMSKEIÐ Í BOÐI FYRIR MS-FÓLK

Í MS-húsinu að Sléttuvegi 5 er boðið upp á jóga þrisvar í viku; á mánudögum og miðvikudögum kl. 16:10 og á laugardögum kl. 9:00 eða kl. 10:30. Hver tími er í 75 mínútur. MS-félagið greiðir niður námskeiðið og kostar mánuðurinn, þrisvar í viku, 5.000 kr. Leiðbeinandi er Birgir Jónsson (Biggi yoga). Á vefsíðu hans www.yogib.is segir: Yoga er alltaf orku- og gleðiaukandi, styrkir og opnar, eykur æðruleysi og hugarró um leið og lærist að sleppa tökunum og gegn kvíða.

MYNDIR FRÁ MARAÞONINU KOMNAR Í MYNDASÖGUR

25. ágúst 2015
Mynd með fréttinni: MYNDIR FRÁ MARAÞONINU KOMNAR Í MYNDASÖGUR

Berglind Björgúlfsdóttir og Ingdís Líndal hafa sent inn myndir frá Reykjavíkurmaraþoninu og má finna þær undir myndasögum hér á vefnum. Fleiri myndir eru alltaf vel þegnar. Nokkrir félagar frá MS-Setrinu sem fóru 3 km hlaupið tóku sig saman eftir hlaupið og fóru á kaffihús og Ljósmyndasafn Reykjavíkur og eru margar myndanna úr þeirri skemmtiferð. Einnig eru myndir frá borðinu okkar í Laugardalshöllinni þar sem hlaupurum okkar og stuðningsmönnum hafði verið boðið að koma við og fá buff og armband að gjöf en einnig eru myndir frá hvatningarstöð okkar við Olís við Eiðisgranda. Þar var mikið stuð og mikið gaman að sjá hvað margir gáfu sér tíma til að veifa til okkar.

SKRÁNING HAFIN Á NÁMSKEIÐ: Jafnvægi, styrktarþjálfun, færni og úthald. Fræðsla og slökun.

23. ágúst 2015
Mynd með fréttinni: SKRÁNING HAFIN Á NÁMSKEIÐ: Jafnvægi, styrktarþjálfun, færni og úthald. Fræðsla og slökun.

Eins og mörg undanfarin ár býður félagið upp á líkamsræktarnámskeið í samstarfi við Reykjalund. Boðið er upp á tíma einu sinni í viku fram að áramótum. Skráning þessa viku. Námskeiðið hefst þriðjudaginn 1. september. Tímarnir byrja á almennri upphitun þar sem leikir og hugfimi er oft fléttuð inn í. Þá tekur við þjálfun á jafnvægi, vöðvakrafti, úthaldi, færni og liðleika. Æfingar eru stundum í formi stöðvaþjálfunar og/eða keppni í leikjum. Teygjur og slökun eru í lok flestra tíma. Hver og einn einstaklingur fær tilsögn og aðstoð eins og mögulegt er í hópnum. Fræðslu um jafnvægi hvíldar og hreyfingar og hreyfivirkni í daglegu lífi er fléttað inn í hvern tíma og tækifæri sköpuð til umræðna.

TAKK FYRIR FRÁBÆRAN DAG, HLAUPARAR OG STUÐNINGSMENN

23. ágúst 2015
Mynd með fréttinni: TAKK FYRIR FRÁBÆRAN DAG, HLAUPARAR OG STUÐNINGSMENN

MS-félagið er fullt þakklætis í garð hlaupara og stuðningsmanna þeirra en alls söfnuðust tvær milljónir tvöhundruð þrjátíuog sex þúsund krónur í Reykjavíkurmaraþoninu fyrir MS-félagið sem er heilli milljón meira en safnaðist í fyrra sem þótti mjög gott – og þykir enn. Alls hlupu 112 einstaklingar fyrir félagið og ein boðsveit. Eins og í fyrra verður söfnunarfénu varið til félags- og fræðslustarsemi. Nú nýlega gaf félagið út kynningarkort með helstu staðreyndum um MS-sjúkdóminn og félagið og verður þeim dreift á helstu heilsugæslustöðvar víðs vegar um landið. Þá eru í burðarliðnum fjórir fræðslubæklingar sem fara í víðtæka dreifingu.

MS-félagið býður upp á metnaðarfulla þjónustu fyrir félagsmenn sína, svo sem:

 

Ýmis námskeið, svo sem fyrir nýgreinda, börn, maka og foreldra MS-fólks, jafnvægis- og styrktarnámskeið, yoga, reiðnámskeið, minnisnámskeið, námskeið í virkni og vellíðan, HAM – hugræna atferlismeðferð og kynjabundin kynlífsnámskeið

 

Lyfjahóp sem leggur sig fram um að viða að sér nýjustu upplýsingum um lyfjamál og vera í forsvari gagnvart heilbrigðisyfirvöldum til að tryggja að MS-fólk njóti bestu mögulegrar meðferðar á hverjum tíma.

 

Fræðslu- og kynningarfundi - upptökur af flestum fundum eru settar á heimasíðuna sem þjónusta við þá sem ekki eiga heimangengt og fyrir landsbyggðarfólk

 

Landsbyggðarfundi til að færa fólk á landsbyggðinni nær félaginu – kynning á félaginu, lyfjamálum og hjálpartækjum

 

Íbúð til útleigu til skemmri tíma að Sléttuvegi 9 sem er aðallega nýtt af landsbyggðarfólki og MS-fólki búsettu erlendis

 

Viðtalstíma við formann félagsins – er sérstaklega vel tekið af nýgreindum og aðstandendum þeirra

 

MS-Setrið - stendur MS-fólki til boða - rekið skv. þjónustusamningi við Velferðarráðuneyti

 

Félagsráðgjafa – viðtalstímar á föstudögum frá kl. 10-13

 

Útgáfu tímarits, MeginStoðar, tvisvar á ári, auk bóka og bæklinga

 

Skrifstofu – opið daglega frá kl. 10-15

 

Þátttöku í Alþjóðadegi MS-félaga

 

Vefsíðu og fésbókarsíðu

 

Erlent samstarf

 

Nefndastarf

 

Ýmislegt annað ótalið

 

 

Forsíða 1. tölublað 2015

Leiðbeiningar:

Til að sjá nýjasta blaðið, smellið með músinni á myndina.

Til að sjá eldri blöð, smellið á örvarnar.

Leiðbeiningar:

Til að sjá nýjustu myndirnar, smellið með músinni á myndina.

Til að sjá myndasafnið, smellið á örvarnar.