KYNNING Á HJÁLPARTÆKJUM Á SUMARHÁTÍÐINNI 27. MAÍ N.K.

23. maí 2015
Mynd með fréttinni: KYNNING Á HJÁLPARTÆKJUM Á SUMARHÁTÍÐINNI 27. MAÍ N.K.

Í tengslum við sumarhátíð MS-félagsins miðvikudaginn 27. mai n.k. (kl. 16-18) verða fimm verslanir; Eirberg, Fastus, Rekstrarland, Rekstrarvörur og Stoð með sýningu á stórum sem smáum hjálpartækjum. Það er til ótrúlega mikið úrval af hjálpartækjum og mörg eru þau niðurgreidd af Sjúkratryggingum fyrir þá sem þeirra þurfa með. Einhverjum gæti þótt erfitt að horfast í augu við að þurfa að nota hjálpartæki en gott er að hafa í huga að þau eru til þess að létta daglegt líf og gera fólki kleift að hafa orku eða getu til að gera meira en ella.

VIKA Í SUMARHÁTÍÐINA 27. MAÍ: FÉLAGSMENN OG VELUNNARAR VELKOMNIR

20. maí 2015
Mynd með fréttinni: VIKA Í SUMARHÁTÍÐINA 27. MAÍ: FÉLAGSMENN OG VELUNNARAR VELKOMNIR

Mikið húllumhæ verður eftir viku í MS-húsinu að Sléttuvegi 5 þegar MS-félagið heldur sumarhátíð sína í tilefni alþjóðlega MS-dagsins kl. 16-18. Félagsmenn og velunnarar eru velkomnir. Að venju verður margt til skemmtunar. Nú í ár mun töframaðurinn Einar einstaki sýna töfrabrögð og hin glæsilega söngkona María Ólafs taka nokkur lög. Hoppukastalinn verður á sínum stað. Ekki má heldur gleyma að í sjúkraþjálfunarsal verða verslanir og fyrirtæki með sýningu á stórum sem smáum hjálpartækjum og öðrum vörum auk þess sem vinnustofa Setursins verður opin. Atlantsolíubíllinn býður upp á pylsur og drykki og MS-félagið býður upp á frostpinna og ávexti.

MARÍA ÞORSTEINSDÓTTIR HEIÐURSFÉLAGI MS-FÉLAGSINS

14. maí 2015
Mynd með fréttinni: MARÍA ÞORSTEINSDÓTTIR HEIÐURSFÉLAGI MS-FÉLAGSINS

Á aðalfundi MS-félagsins 9. maí sl. var María Þorsteinsdóttir, fyrrum formaður, gerð að heiðursfélaga MS-félagsins fyrir einlægan áhuga hennar á málefnum MS-fólks og óeigingjarnt starf í þágu félagsins í 45 ár. Það er félaginu sönn ánægja að bæta Maríu í hóp heiðursfélaga MS-félagsins þar sem fyrir eru Margrét Ólafsdóttir, John Benediktz, Helgi Seljan og Sverrir Bergmann, sem nú er látinn.

STATTU MEÐ TAUGAKERFINU: NÚ SKRIFA ALLIR UNDIR ÁSKORUN TIL SAMEINUÐU ÞJÓÐANNA

13. maí 2015
Mynd með fréttinni: STATTU MEÐ TAUGAKERFINU: NÚ SKRIFA ALLIR UNDIR ÁSKORUN TIL SAMEINUÐU ÞJÓÐANNA

Taugafélögin á Íslandi hafa hrundið af stað landsátaki þar sem óskað er eftir því við landsmenn að þeir setji nafn sitt við áskorun þess efnis að Sameinuðu þjóðirnar geri að þróunarmarkmiði sínu að efla rannsóknir á taugakerfinu svo finna megi lækningu við sjúkdómum og skaða í taugakerfinu. Hægt er að skrá nafn sitt og kennitölu með einföldum hætti á vefsíðuna taugakerfid.is. MS-félagið skorar á alla félagsmenn sína, fjölskyldur þeirra og vini að styðja við þetta einstæða sameiginlega átak sem vonandi mun skila auknum skilningi á taugakerfinu og þar með lækningu við taugasjúkdómum og taugaskaða þegar fram líða stundir.

KÖNNUN UM ATVINNUÞÁTTTÖKU, UMÖNNUN, MEÐFERÐ, STUÐNING OG DAGLEGT LÍF

10. maí 2015
Mynd með fréttinni: KÖNNUN UM ATVINNUÞÁTTTÖKU, UMÖNNUN, MEÐFERÐ, STUÐNING OG DAGLEGT LÍF

EMSP, samtök MS-félaga í Evrópu, biðja okkur að taka þátt í könnun, sem er Á ÍSLENSKU, um atvinnuþátttöku, umönnun, meðferð, stuðning og daglegt líf. Það tekur um 10 mínútur að svara könnuninni en síðasti dagur til þátttöku er 30. maí. Með þátttöku þinni hjálpar þú til við að auka skilning ráðamanna á stöðu fólks með MS í Evrópu og finna lausnir á þeim vandamálum sem blasa við.

AÐALFUNDUR MS-FÉLAGS ÍSLANDS 9. MAÍ

25. apríl 2015
Mynd með fréttinni: AÐALFUNDUR MS-FÉLAGS ÍSLANDS 9. MAÍ

Aðalfundur MS-félags Íslands verður haldinn laugardaginn 9. maí 2015 kl. 13 í MS-húsinu að Sléttuvegi 5 í Reykjavík. Húsið opnar kl. 12:30. Á dagskrá eru venjuleg aðalfundarstörf og önnur mál. Gerð er tillaga um lagabreytingu á 6. gr. laga félagsins er varðar kjör fulltrúa á aðalfund ÖBÍ. Vinsamlega athugið að framboð til stjórnar og nefnda skal tilkynna til skrifstofu eigi síðar en viku fyrir aðalfund og jafnframt að atkvæðisrétt á aðalfundi hafa einungis þeir sem eru skráðir í félagið eigi síðar en viku fyrir fundinn. Veitingar í boði félagsins.

MS-félagið býður upp á metnaðarfulla þjónustu fyrir félagsmenn sína, svo sem:

 

Ýmis námskeið, svo sem fyrir nýgreinda, börn, maka og foreldra MS-fólks, jafnvægis- og styrktarnámskeið, yoga, reiðnámskeið, minnisnámskeið, námskeið í virkni og vellíðan, HAM – hugræna atferlismeðferð og kynjabundin kynlífsnámskeið

 

Lyfjahóp sem leggur sig fram um að viða að sér nýjustu upplýsingum um lyfjamál og vera í forsvari gagnvart heilbrigðisyfirvöldum til að tryggja að MS-fólk njóti bestu mögulegrar meðferðar á hverjum tíma.

 

Fræðslu- og kynningarfundi - upptökur af flestum fundum eru settar á heimasíðuna sem þjónusta við þá sem ekki eiga heimangengt og fyrir landsbyggðarfólk

 

Landsbyggðarfundi til að færa fólk á landsbyggðinni nær félaginu – kynning á félaginu, lyfjamálum og hjálpartækjum

 

Íbúð til útleigu til skemmri tíma að Sléttuvegi 9 sem er aðallega nýtt af landsbyggðarfólki og MS-fólki búsettu erlendis

 

Viðtalstíma við formann félagsins – er sérstaklega vel tekið af nýgreindum og aðstandendum þeirra

 

MS-Setrið - stendur MS-fólki til boða - rekið skv. þjónustusamningi við Velferðarráðuneyti

 

Félagsráðgjafa – viðtalstímar á föstudögum frá kl. 10-13

 

Útgáfu tímarits, MeginStoðar, tvisvar á ári, auk bóka og bæklinga

 

Skrifstofu – opið daglega frá kl. 10-15

 

Þátttöku í Alþjóðadegi MS-félaga

 

Vefsíðu og fésbókarsíðu

 

Erlent samstarf

 

Nefndastarf

 

Ýmislegt annað ótalið

 

 

Forsíða 1. tölublað 2015

Leiðbeiningar:

Til að sjá nýjasta blaðið, smellið með músinni á myndina.

Til að sjá eldri blöð, smellið á örvarnar.

Leiðbeiningar:

Til að sjá nýjustu myndirnar, smellið með músinni á myndina.

Til að sjá myndasafnið, smellið á örvarnar.