GLEÐILEGA PÁSKA - myndir frá páskabingói

17. apríl 2014
Mynd með fréttinni: GLEÐILEGA PÁSKA - myndir frá páskabingói

MS-félag Íslands óskar félagsmönnum sínum og velunnurum gleðilegrar páskahátíðar. Búið er að setja inn myndir undir Myndasafn hér að neðan frá páskabingói félagsins sem haldið var 12. apríl sl. Myndasmiður er Kristján Einar Einarsson. Mjög góð mæting var að venju á bingóið. Dregin voru fram öll borð og stólar hússins og var þétt setið. Páskaeggin dreifðust vel á öll borð og öll börn voru leyst út með litlum páskaeggjum í lokin. Njótið vel um páskana :-)

AÐGENGI SKIPTIR MÁLI

11. apríl 2014
Mynd með fréttinni: AÐGENGI SKIPTIR MÁLI

SEM-samtökin, MND-félagið, MS-félagið og Sjálfsbjörg hafa hrundið af stað verkefninu AÐGENGI SKIPTIR MÁLI. Með því er skorað á alla, sérstaklega þá sem tengdir eru fólki í hjólastólum eða þeim sem eiga við hreyfihömlun að stríða, að versla frekar þar sem allir eru velkomnir. Þar sem fólk í hjólastólum kemst um, komast allir um - hreyfihamlaðir, blindir og fólk með barnavagna, svo einhverjir séu nefndir. Opnuð hefur verið fésbókarsíðan „Aðgengi skiptir máli“ þar sem skorað er á fólk að líka við síðuna og að það reyni markvisst að versla frekar við þá sem bjóða ALLA velkomna með góðu aðgengi.

PÁSKABINGÓ laugardaginn 12. apríl kl. 13:00

7. apríl 2014
Mynd með fréttinni: PÁSKABINGÓ laugardaginn 12. apríl kl. 13:00

Hið árlega páskabingó MS-félagsins verður haldið laugardaginn 12. apríl n.k. kl. 13-15 í MS-heimilinu að Sléttuvegi 5 í Reykjavík. Húsið opnar kl. 12:30. Vinningar eru páskaegg af öllum stærðum og gerðum. Bingóspjaldið kostar 250 kr. og veitingar verða til sölu á vægu verði. Bingóstjóri er Ólína Ólafsdóttir og með henni verða stöllurnar Berglind Björgúlfsdóttir og Vigdís Ingólfsdóttir.

ER MINNIÐ LÉLEGT OG MÆTTI VERA BETRA?

4. apríl 2014
Mynd með fréttinni: ER MINNIÐ LÉLEGT OG MÆTTI VERA BETRA?

Minnisnámskeið fyrir MS-fólk sem vill takast á við minniserfiðleika hefur verið sett á dagskrá í byrjun maí. Um er að ræða meðferð í litlum hópum þar sem fólk getur deilt reynslu sinni og unnið saman við að finna lausnir á minnisleysisvandanum. Farið er yfir helstu minnisþætti, eins og að læra að muna betur eftir nöfnum, andlitum og tölum, bæta námsárangur ofl.

ÁTAKIÐ "HINN FULLKOMNI DAGUR" UM AÐGENGI

31. mars 2014
Mynd með fréttinni: ÁTAKIÐ "HINN FULLKOMNI DAGUR" UM AÐGENGI

Alþjóðadagur MS, sem skipulagður er af MSIF (alþjóðasamtökum MS-félaga), verður haldinn miðvikudaginn 28. maí næstkomandi og nálgast því óðfluga. Í fyrra var áherslan á unga fólkið en nú er áherslan á AÐGENGI í víðasta skilningi þess orðs. Að því tilefni biðlar MS-félagið til MS-fólks og aðstandenda þeirra um að það velti fyrir sér hvaða hindranir eru í vegi fyrir því að það fái óskir sínar uppfylltar um óheft aðgengi að samfélaginu, til dæmis aðgengi að lyfjum, heilbrigðisþjónustu, ferðaþjónustu, skóla, vinnu og tómstundum. Veltið því fyrir ykkur hvernig hin fullkomna framtíð án hafta lítur út.

VIÐ VERÐUM AÐ LIFA MEÐ SJÚKDÓMNUM EN EKKI VINNA GEGN HONUM

29. mars 2014
Mynd með fréttinni: VIÐ VERÐUM AÐ LIFA MEÐ SJÚKDÓMNUM EN EKKI VINNA GEGN HONUM

Þriðjudaginn 1. apríl n.k. heimsækir Daninn Henrik Wessmann okkur í MS-húsið á Sléttuveginum og heldur fyrirlestur um bók sína Passion - Vi skal leve med sklerosen og ikke imod sklerosen, sem útleggst – Við verðum að lifa með sjúkdómnum en ekki vinna gegn honum. Bókin segir frá viðhorfum 18 einstaklinga með MS um hvernig þeir nálguðust ástríður sínar á annan og nýjan hátt eftir MS-greiningu. Fyrirlesturinn hefst kl. 14 og verður þýddur jafnhraðan á íslensku. ALLIR ÁHUGASAMIR ERU VELKOMNIR.

FYRIRMYNDARDAGUR HJÁ VINNUMÁLASTOFNUN 4. APRÍL

20. mars 2014
Mynd með fréttinni: FYRIRMYNDARDAGUR HJÁ VINNUMÁLASTOFNUN 4. APRÍL

Fyrirmyndardagurinn er dagur þar sem fyrirtæki og/eða stofnanir bjóða atvinnuleitendum með skerta starfsgetu að fylgja starfsmanni eftir í fyrirtækinu eða stofnuninni, í einn dag eða hluta úr degi. Þátttakendur dagsins í ár eru atvinnuleitendur með skerta starfsgetu sem eru á skrá hjá Vinnumálastofnun og fyrirtæki sem nú þegar eru í samvinnu við verkefnið Atvinna með stuðningi auk fyrirtækja sem eru aðilar innan Festa-samfélagsábyrgð fyrirtækja, auk nokkurra annarra fyrirtækja.

Þessar vikurnar er í gangi símasöfnun fyrir MS-félagið til að fjármagna þjónustu við MS-fólk.

 

MS-félagið býður upp á metnaðarfulla þjónustu fyrir félagsmenn sína, svo sem:

 

Ýmis námskeið, svo sem fyrir nýgreinda, börn, maka og foreldra MS-fólks, jafnvægis- og styrktarnámskeið, yoga, reiðnámskeið, minnisnámskeið, námskeið í virkni og vellíðan, HAM – hugræna atferlismeðferð og kynjabundin kynlífsnámskeið

 

Lyfjahóp sem leggur sig fram um að viða að sér nýjustu upplýsingum um lyfjamál og vera í forsvari gagnvart heilbrigðisyfirvöldum til að tryggja að MS-fólk njóti bestu mögulegrar meðferðar á hverjum tíma.

 

Fræðslu- og kynningarfundi - upptökur af flestum fundum eru settar á heimasíðuna sem þjónusta við þá sem ekki eiga heimangengt og fyrir landsbyggðarfólk

 

Landsbyggðarfundi til að færa fólk á landsbyggðinni nær félaginu – kynning á félaginu, lyfjamálum og hjálpartækjum

 

Íbúð til útleigu til skemmri tíma að Sléttuvegi 9 sem er aðallega nýtt af landsbyggðarfólki og MS-fólki búsettu erlendis

 

Viðtalstíma við formann félagsins – er sérstaklega vel tekið af nýgreindum og aðstandendum þeirra

 

MS-Setrið - stendur MS-fólki til boða - rekið skv. þjónustusamningi við Velferðarráðuneyti

 

Félagsráðgjafa – viðtalstímar á föstudögum frá kl. 10-13

 

Útgáfu tímarits, MeginStoðar, tvisvar á ári, auk bóka og bæklinga

 

Skrifstofu – opið daglega frá kl. 10-15

 

Þátttöku í Alþjóðadegi MS-félaga

 

Vefsíðu og fésbókarsíðu

 

Erlent samstarf

 

Nefndastarf

 

Ýmislegt annað ótalið